Categories
Skrif um grunninnkomu

Draga gjafapeningar úr atvinnuþátttöku?

Alla daga ársins afhendir íslenska ríkið þúsundum einstaklinga peninga beint inn á bankareikning. Þetta er kallað ýmsum nöfnum, bætur fyrir atvinnumissi, ellilífeyrir, lífeyrir vegna örorku, styrkir til istafólks, tekjutilfærslur eins og barnabætur og vaxtabætur eða beingreiðslur til bænda. Bætur eru almennt háðar skilyrðum um aðra innkomu á meðan beingreiðslur, styrkir og margar tekjutilfærslur eru afhentar án skilyrða um aðra innkomu.

Af einhverjum ástæðum hafa margir atvinnurekendur, fræðingar, stjórnmálamenn og aðrir haldið því fram að bótaþegar og þyggjendur beingreiðslna eyði fjármagninu í tómstundir eða vitleysu, missi áhugann á að vinna og valdi jafnvel skorti á vinnuafli ef of margir fá pening frá ríkinu. Þannig hafa bótaþegar oft verið álitnir letingjar, byrði á samfélaginu eða eitthvað álíka. Því þykir sumum sjálfsagt að skerða tekjutilfærslur ríkis tileinstaklinga.  

Árið 2017 gerðu fjórir bandarískir hagfræðingar ítarlega rannsókn á því hvort beinar fjármagnstilfærslur frá ríki til einstaklinga fengju fólk til að hætta að vinna. Þeir skoðuðu ýmsar tekjutilfærslur til fátækra víða um heim og völdu nokkrar slíkar til að skoða nánar, þar sem verkefnin uppfylltu skilyrði um að; 1) fjármagni var veitt frá ríkinu til einstaklinga, en samt ekki félagsleg bótakerfi, 2) mögulegt var að skoða ítarleg og nákvæm gögn um tekjutilfærslurnar og þátttakendur, og 3) þar sem verulegur fjöldi einstaklinga voru þátttakendur og viðmiðunarhópar skilgreindir. 

Matvælamarkaður

Tekjutilfærsluverkefnin sem þeir skoðuðu fyrst komu frá fjölda ríkja í Suður Ameríku, Evrópu, Asíu og Afríku. Eftir að hafa ákvarðað hvaða kerfi uppfylltu skilyrðin rannsökuðu hagfræðingarnir nánar beingreiðsluverkefni í Honduras, Indónesíu, Mexíkó, Marokkó, Nígaragúa og Filipseyjum frá árunum 1998 til 2012. Við yfirferð á gögnum úr þessum verkefnum fundu þeir meðal annars upplýsingar um atvinnuþátttöku og vinnustundir, bæði þeirra sem þáðu fjármagn og viðmiðunarhópa á sama svæði. 

Með því að rannsaka ítarlega gögn um þyggjendur tekjutilfærslna gátu hagfræðingarnir skoðað nokkuð nákvæmlega hvernig þróunin varð í atvinnuþátttöku fólksins. Samtals ná öll verkefnin til um 45 þúsund heimila og upphæðirnar voru frá 4$ upp í 30$ á mánuði eftir fjölda barna og fjölsyldugerð. Um 56% af þátttakendum höfðu atvinnu áður en beingreiðsluverkefnin hófust og þá var algengara að karlmenn væru vinnandi. 

Niðurstaða hagfræðingana fjögurra var byggð á hagrænum útreikningum á gögnum var sú að atvinnuþátttaka breyttist ekki þegar fólkið fékk beinar tekjutilfærslur frá ríkinu. Fólkið varð ekki latara og hætti ekki að vinna, einhverjar mæður völdu þó að vinna minna úti og sinna börnunum meira á meðan margir karlmenn nýttu fjármagnið til að fjárfesta í atvinnutækifærum. Þetta er álíka niðurstaða og fékkst í tilraun í Finnlandi með tekjutilfærslum til atvinnulausra á árunum 2016-2018. 

Þessar niðurstöður nokkuð fyrirsjáanlegar fyrir okkur íslendinga sem þekkjum hvernig beingreiðslur til bænda hafa um árabil skapað vinnustétt sem nýtir fjármagnið til að fjárfesta í búum, fjölskyldum og framtíðinni. Sama má segja um listamannalaun, þar sem listafólk nýtir fjárstyrki ríkisins til að skapa verðmæti sem mörg eru ómetanleg fyrir samfélagið, leikrit, ljóð, myndlist, skáldsögur og tónverk. Álíka má segja um þá sem þyggja hina ýmsu styrki frá Rannís, Nýsköpunarmiðstöð, Byggðastofnun, o.fl. 

Þeir hópar sem ljóst er að vinna minna við að þyggja beingreiðslur frá ríkinu eru atvinnulausir, ellilífeyrisþegar og öryrkjar, hópar sem þurfa að búa við krónuskerðingar á bótum ef þeir fá aðra innkomu. “Sá galli fylgir þessari aðferð að fólk sem minnstar tekjur hefur á erfitt með að rífa sig upp úr fátæktinni. Þó að meira sé lagt í lífeyrissjóð eða unnið meira aukast ráðstöfunartekjur lítið eða ekki.” (úr skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ.)

Eina vitið er auðvitað að afnema krónuskerðingar á bótum, að ríkið hætti afskiptum af fólki og innkomu þess (öðrum en skattinnheimtu) og að jafnvel stefna að því að sameina allar beingreiðslur, bótakerfi og styrki undir hatti skilyrðislausrar grunnframfærslu fyrir alla. Fyrst í stað er skoðandi að koma á neikvæðum tekjuskatti sem miðast við grunnframfærsluviðmið og enn síðar má skoða að taka upp borgaralaun, þ.e. tekjutilfærslur sem allir landsbúar hafa rétt á óháð innkomu. 

Í það minnsta hefur það verið sannreynt að tekjutilfærslur frá ríki til fólks draga ekki úr vilja þess til að vinna. 

Heimildir: 

Banerjee, Hanna, Kreindler & Olken. Debunking the Stereotype of the Lazy Welfare Recipient: Evidence from Cash Transfer Programs. World Bank Research Observer, 2017. https://academic.oup.com/wbro/article/32/2/155/4098285

Útgjöld til félagsverndar til 2013 á vef Hagstofu Íslands. https://hagstofa.is/talnaefni/samfelag/felagsmal/utgjold-til-felagsverndar/

Útgjöld til félagsverndar til 2017 á vef Eurostat.
https://ec.europa.eu/eurostat/web/social-protection/data/database

Sveinn Agnarsson og Sigurður Jóhannesson. Framleiðnimæling og ávinningur af aukinni atvinnuþátttöku eldri borgara og öryrkja. Hagfræðistofnun HÍ og Rannsóknasetur verslunarinnar, 2007. https://www.vr.is/media/2049/framleidni_atvinnuthatttaka_eldri_borgara_2007.pdf

Categories
Skrif um grunninnkomu

Grunninnkoma og heimsmarkmið fyrir alla

Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna eru 17 yfirgripsmikil atriði sem nær öll ríki heimsins hafa lofað að fylgja til að ná fram bættum heimi árið 2030. Þrátt fyrir ítarleg markmið og undirmarkmið er þjóðum heimsins í sjálfsvald sett hvarnig ná á árangri, eðlilega. Hér er smá yfirferð yfir það hvernig grunninnkoma fyrir alla (GIFA), sem á ensku kallast Universal Basic Income, getur hjálpað innleiðingu meirihluta heimsmarkmiðana.

GIFA styður svo sannarlega við fyrsta lið í heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna um að koma í veg fyrir fátækt, af því að þegar grunninnkomunni verður þannig háttað að munu allir fá innkomu yfir fátæktarmörkum. Vissulega mun áfram verða til “relatíf fátækt” þar sem sumir munu geta átt meira og aðrir minna. Grunninnkoman er þannig stökkpallur á vinnumarkað fyri þá sem vilja meira en lágmarks grunnþarfir.

This image has an empty alt attribute; its file name is L9VLpS4cOiRNtVaoELxueOErW5IAYcJFfi1Hso-nRV5J4BdweXw0HUESXXol0oAWhAF4sc9E55ycGpictU1GNjh10xG36PMbFz3_qaezSATgn6_0MMkZ8F-FU3_jJw8klhUthewO

GIFA styður einnig beint við annann lið heimsmarkmiðanna um að útrýma hungri, enda á grunninnkoman að vera reiknuð þannig að allir hafi grunnþarfir uppfylltar, þar á meðal eru matur, klæði og húsnæði. Vissulega fer fólk líklega mismunandi vel með innkomuna sína og sem fyrr er vert að taka fram að GIFA er hugsað sem grunnframfærsla sem hvetur fólk til að vinna sér inn meira til að sinna áhugamálum, nautnum og öðrum lífsgæðum.

3: Heilsa og vellíðan

Þriðji liður heimsmarkmiðanna er heilsa og vellíðan fyrir alla. Þarna er ekki hægt að segja að GIFA geti haft jákvæð óbein áhrif. Fólk verður frjálst frá áhyggjum vegna mánaðarlegrar grunninnkomu og því undir minna álagi. Þá má búast við að streyta og geðræn vandamál vegi minna en núna þegar margir þurfa að vinna meira en eina vinnu til að ná endum saman. 

4: Menntun fyrir alla

Fjórða markmiðið er menntun fyrir alla. Þar er GIFA aðeins með lauslegan snertiflöt, sem skýrist af því að fleiri fullorðnir fara og mennta sig ef grunninnkoman hefur verið tryggð í GIFA. Það er margoft búið að sýna fram á þetta með tilraunum. Slíkt er af hinu góða, enda er góð menntun undirstaðan að aukinni launaðri innkomu og bættum lífsgæðum.

Fimmta markmiðið er jafnrétti kynjanna. Þar getur GIFA spilað stórt hlutverk. Það hefur nefnilega sýnt sig í tilraunum með skilyrðislausa grunninnkomu erlendis að konur öðlast aukið frelsi frá mökum sínum við það að grunninnkoman sé regluleg og örugg. Þá hafa þær sótt í nám og bætt lífskjör sín. Í mörgum tilfellum gátu makar losnað úr óhamingjusömu sambandi þegar mánaðarlegra grunninnkoman er tryggð.

Hoppum næst yfir í áttunda sjálfbærnimarkmið Sameinuðu Þjóðanna, það gengur út á að viðhalda sjálfbærum hagvexti og mannsæmandi atvinnutækifærum fyrir alla. Þar hefur GIFA bæði bein og jákvæð áhrif, enda hefur atvinnuþátttaka aukist allstaðar þar sem grunninnkoman hefur verið prófuð. Fólk nýtir grunninnkomuna sem stökkpall til að láta drauma sína rætast.

Grunninnkoma fyrir alla hefur einnig jákvæð áhrif á níunda markmiðið um aukna nýsköpun og sjálfbæra uppbyggingu. Fjöldi fólks er með allt aðra styrkleika og drauma en það er að þyggja laun fyrir í dag. GIFA auðveldar þeim sem geta, vilja og þora að skapa eigin tækifæri, standa á eigin fótum og stofna sprotafyrirtæki, vera frumkvöðlar. Um leið eykst fjölbreytni og nýsköpun í atvinnulífinu. 

Í tíunda markmiði S.Þ. er GIFA svo sannarlega í essinu sínu því aukinn jöfnuður einstaklinga er einmitt einn af helstu kostum þess að innleiða grunninnkomu fyrir alla. Jöfunuður mun aukast á milli kynja, milli kynþátta, og milli borgar og landsbyggðar, svo eitthvað sé nefnt. Það lýsir sér í því að allir fá jafnan grunn greiddan út mánaðarlega, óháð búsetu, kyni eða kynþætti.  

Ýmsir sérfræðingar hafa leitt líkur að því að GIFA muni auka á sjálfbærni samfélaga, sem er einmitt ellefta heimsmarkmiðið. Það má einmitt búast við að fleiri muni finna jafnvægi milli atvinnu, frítíma og fjölskyldu, fremur en að vinna myrkranna á milli. Þá má búast við að hagnaðardrifna neyslusamfélagið sem við erum vön geti orðið meira ánægjudrifið og hætti að vaxa út í hið óendanlega. 

Grunninnkoma fyrir alla á jafnmikið við um tólfta heimsmarkmiðið eins og það ellefta, þar sem búast má við að fólk sem nýtur grunninnkomu án afskipta ríkisins verði ábyrgara fyrir eigin velferð, mennti sig betur og taki í auknum mæli þátt í ákvarðanatöku um atriði og stjórnsýslu sem hefur áhrif á líf þeirra. Fleiri munu stunda framleiðslu og smáverslun með varning úr nærumhverfinu. 

Sextánda markmiðið snýst um frið og réttlæti. Þar má segja að grunninnkoma fyrir alla hafi mikil bein áhrif. Enda matast erjur, skærur og styrjaldir oftar en ekki á fátækt, mismunun og glötuðum tækifærum einstaklinga. Mánaðarlega greidd grunninnkoma fyrir alla er einnig skref í átt að auknu réttlæti, sér í lagi hönd í hönd við aukið gagnsæi og aukið lýðræði. 

Ein helsta gagnrýnin á heimsmarkmiðin er mikill kostnaður við að ná þeim. En þegar málið er hugsað til enda þá er nokkuð ljóst að kostnaðurinn við að gera ekkert í málunum er líklega mun meiri. Grunninnkoma fyrir alla er ekki til þess gerð að letja fólk til að taka þátt í vinnumarkaði og samfélaginu, heldur til að veita fólki frelsi til að velja sjálft hvernig það tekur þátt.

Það er afar mikilvægt að huga mun betur að grunninnkomu fyrir alla, stundum kallað borgaralaun, ef íslendingum og öðrum ríkjum heims er einhver alvara í að láta heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna að veruleika. Nú hafa 193 ríki heimsins skuldbundið sig að uppfylla markmiðin og Ísland er þar á meðal. Heimsmarkmið er varða lífríki, loftslag, orkumál og vatnsgæði þurfa síðan aðrar lausnir en skilyrðislausa grunninnkomu.

Grunninnkoma fyrir alla er ein af mikilvægustu aðgerðum til að ná fram bættum lífskjörum fyrir sem flesta. Ef GIFA er innleitt á sama tíma og sjálfbærnimarkmið, velferðarmarkmið og viðskiptamarkmið, með skýrri aðgreiningu á því hvaða málaflokkar fylgja markaðslögmálum og hvaða málefni tilheyra samfélagslegri velferð, má búast við að heimsmarkmiðin geti nást og leitt til framfara fyrir mannkynið.

Categories
Skrif um grunninnkomu

Hrakvinna og hark

Píranafiskar í leit að æti

Ég gekk fram hjá kaffihúsi í miðbænum í Reykjavík í gær ásamt hópi fólks. Einn sagði “Þarna vinnur stúlka sem ég þekki, það er víst þannig núna að enginn hefur neitt atvinnuöryggi, sá sem rekur staðinn póstar á facebook að það vanti fólk á ákveðna vakt og þau sem vinna á staðnum stökkva strax á vaktirnar eins og píranafiskar.”

Þannig virkar harkið á vinnumarkaðnum í dag. Er fólkið sem býr við þessar aðstæður í dag ekki í sömu sporum og faðir minn og aðrir daglaunamenn og hafnarverkamenn í Reykjavík voru í fyrir sjötíu árum? Eru þau sem núna bíða eftir útkalli um að manneskju vanti á vakt ef til vill í verri sporum en hafnarverkamenn fyrri tíma? Á þeim tíma vantaði erfiðisvinnufólk í mörg störf en núna fjarar undan störfum hraðara en heimurinn hitnar. Sjálfvirkni og gervigreind og tæknivæðing sópa vinnuafli til hliðar. Og samfélag síðkapítalismans býr til nýja stétt sem sífellt stækkar. Stéttin hefur verið nefnd harkarastétt (e. precariat) og verkalýðsforingjar hafa kallað þá iðju sem þessari stétt býðst hrakvinnu (e. precarious work).

Það sem einkennir þessa nýju stétt er ótrygg kjör varðandi atvinnu. Það er ekkert sem bendir til annars en harkarastéttin verði stærri og stærri og þær aðstæður sem eru í heiminum núna munu ekkert gera nema flýta fyrir þróuninni, flýta fyrir vélvæðingu og sjálfvirkni og fækka störfum.

Það er við svona aðstæður sem við þurfum borgaralaun eða UBI (grunnframfærslu fyrir alla).

Tenglar

Precarious Work, Unemployment Benefit Generosity and Universal Basic Income Preferences: A Multilevel Study on 21 European Countries

Coronavirus may drive change in precarious employment

Where next for the gig economoy and precarious work post Covid-19

Digitalisation and precarious work practices in alternative economies: Work organisation and work relations in e-cab services

Categories
Skrif um grunninnkomu

Grunninnkoma, hvernig er hún reiknuð?

Hagfræðingar sem eru  sammála um að grunninnkoma sé nauðsynleg segja að greiðslan þurfi einnig að hvetja fólk að sækja á vinnumarkað. Þannig þarf að stemma grunninnkomu fyrir alla þannig af að mánaðarlega upphæð letji ekki fólk til vinnu.

Grunninnkoman

Með ofangreint í huga er ljóst að mánaðarlega grunninnkoman verður að reikna miðað við lágmarksþarfir og lífsnauðsynjar eingöngu. Ótrúlegt en satt þá hafa öll ríki í heiminum reiknað slíkan kostnað per einstakling um langt skeið, en það er daglegur/mánaðarlegur kostnaður vegna gæslu fanga í fanga- og nauðungarvistmanna. Flest ríki bjóða einnig framfærslustyrki fyrir atvinnulausa og óvinnufæra.

Þó verður að segjast að á Íslandi er nærtækt að skoða hvaða viðmið bankar, lánasjóðir og ríkisstofnanir nota til að reikna út greiðslugetu hvers einstaklings. Bæði Íbúðalánasjóður og Íslandsbanki gera ráð fyrir að framfærslukostnaður einstaklings án húsnæðiskostnaðar og samgöngukostnaðar séu tæpar 120 þúsund krónur á mánuði, segjast miða við útreikninga verlferðarráðuneytis.

Samræma þarf útreikninga á því hvar fátæktarmörk liggja, hver lágmarks grunnframfærsla þarf að vera og hversu há grunninnkoma fyrir alla á að vera. Þetta þarf allt að vera ein og sama upphæðin og miða þarf skattleysismörk við sömu tölu.

Reiknivél velferðarráðuneytis um neysluviðmið sem er kvörðuð miðað við neysluverð árið 2019 segir hins vegar að grunnviðmið framfærslukostnaðar án húsnæðis sé 80.396 krónur, óháð því hvar á landinu maður býr. 

Umboðamaður skuldara er með sinn eigin útreikning á framfærsluviðmiðum, þar gert ráð fyrir um ca 109.959 krónum að meðaltali í grunnframfærslu og 52.159 krónum í samgöngukostnað, en í reiknivél embættisins er notendum boðið að setja inn eigin húsnæðiskostnað sem bætist við framfærsluna. Viðmið umboðsmanns skuldara byggja á gögnum úr rannsókn Hagstofu Íslands á útgjöldum heimilanna 2013-2016.

Síðan er Lánasjóður Íslenskra Námsmanna með enn eina útgáfu á útreikningum grunnframfærslu. Þar er gert ráð fyrir því að einstaklingur þurfi 109.530 krónur á mánuði til að lifa og 75.276 kr til viðbótar í húsnæðiskostnað á mánuði til að lifa út skólaárið, sem sagt 9 mánuði ársins. Ekki kemur fram hvort samgöngukostnaður sé inni í þessum tölum LÍN

Neysluviðmið velferðarráðuneytis

Aftur að velferðaráðuneyti. Á síðu ráðuneytisins stendur: Dæmigert viðmið á að endurspegla útgjöld íslenskra heimila. Fyrir flesta útgjaldaflokka er dæmigert miðgildi útgjalda er reiknað. Hér er þó ekki um lúxusviðmið að ræða. Þess til viðbótar er reiknað grunnviðmiðið sem gefur vísbendingar um hvað fólk þarf að lágmarki til að framfleyta sér.

Útgjaldaflokkar reikninga velferðarráðuneytis innihalda kostnað við kaup á mat, drykkjarvörum og öðrum dagvörum heimilis, fötum og skóm. Heimilisbúnaði, raftækjum, lyfjum og meðalútgjöldum vegna heilsugæslu, vegna síma og nets, menntunar, auk annarrar þjónustu við heimili (hiti-vatn-rafmagn). Svo eru þar inni almenningssamgöngur og lágmarks tómstundakostnaður.

Reyndar tekur maður eftir því að í þessi reiknuðu framfærsluviðmið opinberra aðila vantar alltaf einn eða tvo kostnaðarliði, svo sem húsnæði, samgöngur, tryggingar, hita, rafmagn, leikskóla/skólagjöld fyrir börn. Það er því erfitt að bera saman, enda á að vera starfandi nefnd á vegum félagsmálaráðuneytis til að finna út “hið eina rétta” í þessum málum.

Húsnæðiskostnaður

Mat á húsnæðiskostnaði vantar hjá velferðarráðuneytinu, en sá er að mínu mati akkilesarhæll íslenska velferðarkerfisins, þar sem sjálfseignastefna í húsnæðismálum, verðtryggingarblæti og ofurlánastefna hafa takmarkað leigumarkað húsnæðis og önnur úrræði verulega. Kostnaður við rekstur eigin bifreiða ekki heldur reiknaður, enda mismunandi þörfum saman að jafna hjá ólíku fólki. 

Jafnvel við núverandi aðstæður er mögulegt að reikna kostnað per einstakling á leiguhúsnæði í undir 100 þúsund kr. per mann ef um er að ræða sambúð eða samleigu með öðrum. Þannig má ætla að úrræðagóðir einstaklingar geti komist af með fremur lága grunninnkomu. En auðvitað koma “einbúar” og einstæðir foreldrar verst út úr slíkum reikningum. 

Yfirvöld ættu því að hvetja til fjölbreytts leigumarkaðar og annarra úrræða þar sem nægilegt húsnæði verður á hagstæðu leiguverði sem hentar einstaklingum og einstæðum foreldrum. Slíkt hlýtur að vera þjóðhagslega hagkvæmt þar sem þessir aðilar eiga þá möguleika á að safna fé til að tryggja sér betri framtíð. Frelsið felst í því að geta valið. 

Að lokum verður að nefna að með því að reikna grunninnkomuna lága, þ.e. við lágmarksframfærsluviðmið er öllum landsbúum tryggður sami réttur til lífs og það án skilyrða og krónuskerðinga. Barátta um lágmarkslaun sem verða umtalsvert hærri en grunninnkoman verður áfram mikilvæg og nauðsynleg til að tryggja atvinnuþátttöku fólks, því flestir vilja jú fá eitthvað meira en lágmarkið til að framfleyta sér.

Heimildir:
– Neysluviðmið velferðarráðuneytis:
https://www.stjornarradid.is/verkefni/felags-og-fjolskyldumal/neysluvidmid/
– Lánasjóður Íslenskra Námsmanna (LÍN)
https://www.lin.is/um-lin/log-og-reglur/uthlutunarreglur-2019-2020
– Umboðsmaður skuldara
https://www.ums.is/is/adstod-vid-greidsluvanda/framfaerslu-reiknivel
– Frétt í Eyjunni á vef DV, 29.10.2019
https://www.dv.is/eyjan/2019/10/29/sjadu-upphaedina-sem-thu-att-ad-geta-lifad-neysluvidmid-rikisins-uppfaerd/
– Vefsíður Íbúðalánasjóðs og Íslandsbanka (skoðað 10.6.2020).

Categories
Skrif um grunninnkomu

Nóbelsverðlauna hugmynd

Hugmyndin um grunninnkomu fyrir alla, er ágætlega studd af ýmsum nóbelsverðlaunahöfum. Þekktastur er líklega Martin Luther King Jr sem fékk friðarverðlaun Nóbels. Martin sagðist vera: “sannfærður um að einfaldasta leiðin muni ná mestum árangri og leiðin til að takast á við fátækt er að útrýma henni alveg, með hinni mikið umræddu aðferð, grunninnkomu.”

Ekki síður þekktur er hagfræðingurinn Milton Friedman sem hefur haft mikil áhrif á þróun markaðshagkerfa Vesturlanda, en hann fékk svo nóbelsverðlaun fyrir hagfræðikenningar sínar. Árið 1967 skrifaði Milton um grunninnkomu:
“Ég mæli með neikvæðum tekjuskatti þar sem það væri mun myndugra en núverandi bótakerfi. Það mun kosta mun minna, veita meiri aðstoð til fátækra, koma í veg fyrir truflun á einstaklingsfrelsi, viðhalda hvata til vinnu og minnka skriffinskuna sem nú er.” 

Til skýringar má nefna að neikvæður tekjuskattur er í raun álíka og persónuafsláttur, sem þó hefur verið gerður útgreiðanlegur og miðast við grunnframfærsluviðmið. Ef öllum eru veitt sú réttindi að geta fengið útgreiddan persónuafslátt þegar innkoma þeirra nær ekki grunnframfærsluviðmiði, rétt eins og Milton Friedman talar um í skrifum sínum, þá er slíkt eitt form af grunninnkomu fyrir alla. Það má kalla gott fyrsta skref til að útrýma fátækt og afnema óskilvirk bótakerfi sem minnka hvata til vinnu.

Neikvæður tekjuskattur
Myndin lýsir neikvæðum tekjuskatti, sem er útgreiðanlegur persónuafsláttur. Á myndinni er miðað við grunnframfærsluviðmið um 250 þúsund á mánuði.

Síðan má nefna að nóbelsverðlaunahagfræðingarnir Dr. Joseph Stiglitz og Dr. Christopher Pissarides hafa báðir nefnt grunninnkomu fyrir alla sem góðan kost til að koma betri grunni undir markaðshagkerfi heimsins. 

Dr. Pissarides sagði árið 2016: “Það munu ekki allir koma vel út úr því að markaðurinn fái að ráða ferð. Þannig að við þurfum að þróa ný kerfi til að útdeila, nýjar stefnur sem munu úthluta frá þeim sem markaðurinn hefði verðlaunað til þeirra sem markaðurinn skilur útundan. Grunninnkoma fyrir alla er ein slík leið, í raun er það hún sem ég held í mestum metum, svo lengi sem við komum henni á án þess að draga úr hvötum til atvinnuþátttöku í lágenda markaðarins.”

Þegar Dr. Stiglitz, var spurður á heimsráðstefnunni 2015 hvort honum litist vel á grunninnkomu fyrir alla. Hann svaraði “Já, það er hluti af lausninni.”  Síðan hélt hann áfram og sagði að grunninnkoman væri ekki allt, og bætti við pælingum svo sem að einnig þurfi að breyta reglum markaðshagkerfisins með því að dreifa fjármagni til fleiri og koma í veg fyrir að spákaupmenn séu skattlagðir í lægra hlutfalli en annað fólk. 

Hagfræðingurinn Friedrich Hayek skrifaði árið 1982: “Fullvissan um tiltekna lágmarksinnkomu fyrir alla eða lágmark sem enginn þarf að fara undir, jafnvel þó að hann geti ekki séð fyrir sér, virðist bæði vera fullkomlega lögmæt vernd gegn áhættu sem er sameiginleg öllum, ásamt því að vera nauðsynlegur hluti samfélags þar sem einstaklingar hafa ekki lengur bein tengsl við þá hópa sem þeir fæddust í”. Þó Hayek sé ekki nóbelsverðlaunahafi þá er hann eitt af stóru nöfnum hagfræðinnar á síðustu áratugum og er þekktastur fyrir frjálshyggjulegar nálganir. 

Samkvæmt ofangreindu eru margir af helstu hugsuðum samtímans og fyrirmyndir annarra bæði í hagfræði og öðrum samfélagsmálum mjög sammála um nauðsyn þess að skoða leiðir til að taka upp grunninnkomu fyrir alla.

Heimildir:

  • “Where We Are Going” eftir Martin Luther King Jr. úr bókinni ‘Where Do We Go From Here: Chaos or Community?’ árið 1967. 
  • „Tekið upp hanskann fyrir neikvæðan tekjuskatt“ eftir Milton Friedman. Birt í: National Review, 7. mars 1967. 
  • Erindi Sir Christopher Pissarides á ‘World Economic Forum’, í Davos 20. janúar 2016.
  • Erindi Dr. Joseph Stiglitz á ‘World Summit on Technological Unemployment’, í New York 29. febrúar 2015. 
  • Friedrich Hayek tilvitnun má m.a. finna í Wikiquote á veraldarvefnum.
Categories
Skrif um grunninnkomu

Leiðin fram á við

Royalty-Free photo: Person holding light bulb | PickPik

Hugmyndin um að allir landsbúar eigi rétt á mánaðarlegri grunninnkomu án frekari afskipta frá ríki og sveitarfélögum er líklega besta mögulega útfærsla á draumum um samspil einstaklingsfrelsis, frjáls markaðar og virks velferðakerfis. Grunninnkoma fyrir alla (GIFA) getur komið í stað flestra bótakerfa þar sem peningatilfærslur fara frá hinu opinbera til einstaklinga. GIFA leysir af hólmi fjölda jöfnunarstyrkja, listamannalauna, beingreiðslna til bænda og tekið við af barnabótum, svo eitthvað sé nefnt. Þá verða lífeyrisgreiðslur valfrjálsar og stéttarfélög þurfa ekki að berjast fyrir grunnviðurværi fólks. 

Atvinnurekendur ættu að fagna hugmyndinni um grunninnkomu fyrir alla þar sem launatengd gjöld má lækka verulega. Frumkvöðlar ættu að fagna þar sem hægt verður að stofna sprotafyrirtæki eða aðra starfssemi án þess að hafa áhyggjur af grunninnkomu fyrir sig og fjölskylduna. Fólk sem vill minnka við sig vinnu til að geta sinnt áhugamálum, fjölskyldu, hjálparstarfi, íþróttum, listum, nýsköpun eða vísindum mun geta það. Síðan getur fólk með skerta starfsgetu fengið trygga grunninnkomu til að byggja á. 

Um leið einfaldast störf hins opinbera verulega og fjármagn sem áður fór til styrktar tiltekinna atvinnugreina mun fara í að styðja landsbúa til að vinna að þeim atvinnugreinum sem þörf er á hverju sinni. Fólk verður frjálsara, fjármagnið grunninnkomunnar fer í hringrás hagkerfisins, hluti af því kemur aftur til ríkisins í formi virðisaukaskatts. Afskipti og eftirlit með fólki í bótakerfinu sparast og þess í stað geta Alþingi og ríkisráð fylgst betur með og hert aðgerðir gegn peningaþvætti og skattaundanskotum og til að auka gagnsæi með fyrirtækjum og lögaðilum.

Alþingi þarf reyndar að gera nokkrar varúðarráðstafanir til að koma í veg fyrir að stórir markaðsaðilar gleypi ekki ávinning landsbúa af nýja kerfinu, t.d. með breyttum reglum um bankastarfsemi og peningaútgáfu. Best er að greiðslum grunninnkomu sé stýrt af Ríkisskattstjóra milliliðalaust til einstaklinga, þá geta þeir sem vilja afþakka GIFA hakað við þar til gerðan reit á skattskýrslu. Bankar, tryggingafélög, stórfyrirtæki og aðrir aðilar sem starfa í fákeppnisumhverfi eiga ekki að geta dregið úr lífsgæðum sem GIFA veitir fólki. 

Einnig þarf að koma á hvötum til að bæta valfrelsi í húsnæðismálum og lækka kostnað landsbúa vegna þaks yfir höfuðið. Svo þarf aðgerðir og hvata til að draga úr fjármagnskostnaði fólks og til að draga úr fákeppni. Mikilvægt er að efla samkeppnisstyrki til einstaklinga, félaga og fyrirtækja til að efla menningu, matvælaframleiðslu, nýsköpun, umhverfisvernd og vísindaiðkun. Allir slíkir styrkir fari í gegnum eina stofnun, t.d. Rannís, úthlutun er þá fyrirsjáanleg, gagnsæ og rekjanleg.  Með innleiðingu GIFA munu ríki og sveitarfélög færast yfir í meira þjónustuhlutverk gagnvart samfélaginu.

Categories
Skrif um grunninnkomu

Grunninnkoma og lækkun launatengdra gjalda

Launatengd gjöld hafa verið þyrnir í augum margra launagreiðenda, enda geta þessi lögbundnu gjöld verið kostnaður allt að 30% ofan á umsamin laun starfsfólks. Launatengd gjöld eru í raun margir gjaldliðir sem hver og einn reiknast sem hlutfall af umsömdum launum. Stærstu launatengdu gjöldin eru lögbundið framlag launagreiðenda í lífeyrissjóð (11,5%) og reiknað orlof starfsfólks (10,17%-13,04% eftir réttindum). Hlutfall helstu launatengdra gjalda má sjá hér í töflu: 

Launatengd gjöld launagreiðenda núHlutfall
Til jöfnunar/lækkunar örorkubyrði lífeyrissjóða 0,325%
Til fæðingarorlofssjóðs til að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf 1,1%
Til lífeyris- og slysatrygginga hjá Tryggingastofnun 3,475%
Atvinnutryggingagjald til Atvinnuleysistryggingasjóðs 1,35%
Ábyrgðasjóður launa greiðslu á kröfum um vangoldin laun og álíka kröfur0,05%
Markaðsgjald, til rekstrar á Íslandsstofu 0,05%
Lögbundið framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð 11,5%
Framlag í endurhæfingarsjóð 0,1%
Reiknað orlof starfsfólks 10,17%-13,04%
Mótframlag vegna valfrjáls séreignasparnaðar starfsfólks2%

Launatengd gjöld og grunninnkoma

Í dag standa launatengd gjöld atvinnurekenda að mestu undir félagslega bótakerfinu. Bætur eru skertar og tekjutengdar með þeirri afleiðingu að þær skila sér illa til að efla atvinnulíf í landinu með því að efla frumkvæði og hæfni allra landsbúa til að taka þátt í vinnumarkaði. Sé landsbúum boðið upp á réttindi í stað skilyrtra bóta munu fleiri tekið þátt í að skapa atvinnutækifæri. Grunninnkoma fyrir alla (borgaralaun) er sú hugmynd að allir landsbúar eigi að hafi réttindi á því að fá greidda fasta mánaðarlega grunninnkomu sem tryggir lágmarks lífsviðurværi, að upphæð sem ræðst að lögfestu og vísitölutryggðu grunnframfærsluviðmiði. 

Flestir hugsa strax út frá gildandi hagkerfi og segja að grunninnkoma fyrir alla sé of dýr. Svarið er nei, því um leið og grunninnkoma verður að réttindum aukast tekjur ríkissjóðs bæði í formi tekjuskatts einstaklinga og virðisaukaskatts, sem eru tveir stærstu tekjuliðir hins opinbera. Einnig þarf margt að breytast í hagkerfinu* og á vinnumarkaði til að nýju réttindin bæti hagkerfið. Um leið og ráðist verður í að afnema krónuskerðingar bóta og hækkunar persónuafsláttar upp í lágmarks framfærsluviðmið, þarf aðgerðir til að lækka verðlag húsnæðis og matvæla. En augljóslega aukast tækifæri bæði lágtekjufólks og skapandi fólks til að bæta við eigin tekjur og auka um leið tekjur ríkissjóðs. 

Lækkun launatengdra gjalda

Með tilkomu grunninnkomu fyrir alla verður mögulegt að leggja mörg launatengd gjöld af og gera önnur valfrjáls fyrir starfsfólk. Það má leggja avinnuleysisbætur niður í skrefum jafnframt því að afnema með öllu kröfu um krónu á móti krónuskerðingar sem tíðkast hafa í atvinnubótakerfinu. Eftirlitskerfi Vinnumálastofnunar með innkomu fólks má leggja af því eina eftirlitshlutverkið sem þörf er á hjá Ríkisskattstjóra þar sem fylgst verður með því að bæði launagreiðendur og launþegar greiði gjöld og skatta í samræmi við lög. Þannig geta launagreiðendur sleppt að greiða atvinnutryggingagjaldið 1,35%. 

Það má aftengja lögbundnar greiðslur í lífeyrissjóði því grunninnkoma mun sjá til þess að allir landsbúar verða með grunnviðurværi tryggt æfilangt. Lífeyrissjóðsgreiðslur geta þá orðið valfrjálsar fyrir hvern og einn landsbúa, án framlags fyrirtækja. Sama á við um séreignasparnað, þar sem launagreiðendum er gert að greiða 2% sem mótframlag ef starfsfólk velur að leggja 2% eða meira af launum sínum í séreignasparnað. 

Annar stór liður í launatengdum gjöldum eru orlofsgreiðslur sem reiknast 10,7% af nettó umsömdum launum fyrir 24 daga orlof. Það er vel hægt að hugsa sér að leggja megi lögbundnar orlofsgreiðslur niður þegar allir landsbúar hafa rétt á grunninnkomu þegar þeir fá samþykkt frí frá vinnu. Einnig má ímynda sér að starfsfólk eða stéttarfélög geti samið við launagreiðendur um að greiða í orlofssjóði, t.d. Í ráðningasamningi, án þess að ríkið sé með lagasetningu þar um. 

Í stað þess að allir launagreiðendur séu að greiða í ábyrgðasjóð launa 0,05% þaðan sem sækja má greiðslu á kröfum um vangoldin laun, bætur vegna slita á ráðningarsamningi, ógreitt orlof, bætur vegna vinnuslysa og álíka, má alveg hugsa sér markaðslausn þar sem launagreiðendur greiði tryggingagjald sem samsvarar 3-6 mánaða launum á lokaðan reikning fyrir hvern starfskraft, en geta fengið féð til baka við starfslok ef launagreiðandinn hefur staðið skil á öllum greiðslum.

Launatengd gjöld framtíðar

Þegar búið er að afnema gjöld sem nefnd eru hér að ofan, ásamt greiðslum launagreiðenda til reksturs ríkisstofnunarinnar Íslandsstofu, sem varla þarf að orðlengja hversu fáránlegt er. Standa eftir launatengd gjöld sem eru ríflega rúmlega helmingi lægri en nú er, eða um 10-12% ofan á hverja launagreiðslu. Gjöldin sem eftir standa má kalla samfélagslega ábyrgð launagreiðenda til að tryggja mannauð í samfélaginu. 

Hugmyndir um launatengd gjöld framtíðarHlutfall
“Almannatryggingagjald” til meðferðarúrræða og slysatrygginga 3-4%
“Barnabótatryggingagjald” til að greiða fyrir úrræðum fyrir ólögráða einstaklinga 3-4%
“Örorkutryggingargjald” til úrræða fyrir fólks með skerta vinnugetu 4-5% 
…eða…
Önnur hugmynd gæti verið: “Samfélagsgjald”ca. 11%

Í stað núverandi framlags launagreiðenda til atvinnuleysis, lífeyris- og slysatrygginga, í endurhæfingasjóði, í fæðingarorlofssjóði og örorkusjóði geta komið einn, tveir eða þrír gjaldliðir þar sem launagreiðendum er gert að axla samfélagslega ábyrgð með því að greiða fyrir vinnutengd meðferðarúrræði, slysatryggingar og álíka, einnig fyrir úrræði fyrir ólögráða einstaklinga til eflingar atvinnuþátttöku og jafnvel örorkutrygginagjald sem færi til fólks með skerta vinnugetu, þar eru ótal hugmyndir og þarfir til atvinnuskapandi úrræða. Markmið “samfélagsábyrgðargjalds” væri að fyrirtæki stuðli að eflingu vinnumarkaðar á Íslandi. 

Þegar allir landsbúar eiga rétt á grunninnkomu er ljóst að launatengd gjöld atvinnurekenda geta lækkað úr 20%-30% niður í 10%-12% af launakostnaði. Það ætti nú að gleðja marga launagreiðendur og hvetja til að skoða nýja kosti í samskiptum við ríki og starfsfólk. Samfélagi þar sem meginhlutverk ríkisins er að tryggja frelsi og réttindi með grunninnkomu fyrir alla og tækla í leiðinni atvinnuleysi, fátækt og réttindi þeirra sem hafa skerta vinnugetu eða kjósa að vinna á öðrum vettvangi, eins og fjölskyldu- og heimilisstörf, sjálboðastörf, skapandi störf svo sem listsköpun eða rannsóknarstörf eða ná árangri í íþróttum, svo nokkur dæmi séu nefnd. 

* Lesa má enn fleiri hugmyndir um hagræðingar og úrbætur í skattkerfinu í nýlegum skýrslum:
– Úttekt á íslensku skattkerfi, 2016
https://www.stjornarradid.is/media/forsaetisraduneyti-media/media/Skyrslur/uttekt-a-skattkefinu.pdf
– Sanngjörn dreifing skattbyrðar, 2019
https://efling.is/wp-content/uploads/2019/02/Sanngjo%CC%88rn-dreIfing-skattbyr%C3%B0ar-lokaproof_A.pdf
– Eða samanburð á nokkrum efnistökum þessara skýrslna
Samanburður á tillögum til úrbóta í skattamálum.

Categories
Skrif um grunninnkomu

Grunninnkoma á tímum heimsfaraldurs

Nú þegar ný Corona veira herjar á samfélag manna um allan heim hefur atvinnulíf víða lamast og milljónir manns horfa upp á atvinnumissi og aðrar milljónir manns sjá fram á skertar tekjur. Við þetta ástand hafa mjög margar fréttir verið um mögulega grunninnkomu greidda af ríkjum fyrir þá sem verða fyrir barðinu á efnahagskreppu vegna veirunnar. 

Flugstöðin tóm

Í fréttamiðlinum Aljazeera birtist nýverið grein um það hvernig grunninnkoma fyrir alla (Universal Basic Income) sé ein besta leiðin úr efnahagslegum ógöngum, enda hafi nóbelshagfræðingurinn Amartya Sen sýnt fram á að helsta ástæða hungurs og skorts sé ekki skortur á matvælum, heldur skortur á aðgengi. Þar sé innkoma fólks lykilþáttur. Nú á tímum Corona veirunnar hafa fulltrúar Alþjóðabankans talað vel um skilyrðislausa grunninnkomu sem leið út úr ógögnunum. 

Á Spáni eru núna hugmyndir um að veita grunninnkomu til allra samkvæmt Nadia Calvino efnahagsráðherra spánverja. Haft er eftir henni að einhverskonar grunninnkoma verði komið á fljótlega, með áherslu á aðstoð til fjölskyldna. Einnig sagði hún að stefnt væri að því að koma á grunninnkomu sem verður varanlegt tæki. Mikið af smáum og millistórum fyrirtækjum hefur stöðvast á Spáni vegna Corona veirunnar. 

Í Bretlandi hafur Boris Johnson forsætisráðherra sagt að grunninnkoma fyrir alla sé ein af þeim leiðum sem verið sé að skoða til að vernda afkomu vinnandi fólks. Í The Telegraph er sagt frá því hvernig grunninnkoma sé góð leið til að vinna gegn áhrifum efnahagskreppu sem veiran kann að valda. Þar er talað um 350 milljarða punda (62 þúsund milljarðar króna) hjálparaðgerðir fyrir viðskiptalífið. Ef aðgerðirnar verða eingöngu fyrir viðskiptalífið verður þó varla hægt að kalla þær “universal” eins og UBI heitið ber með sér. 

Í Bandaríkjunum hafa þingmenn í New York og frá Hawaii kallað eftir skilyrðislausum grunninnkomugreiðslum til allra íbúa. Á Hawaii er Tulsi Gabbard þingkona búin að leggja fram lagafrumvarp um að allir á eyjunni fái 1000 dollara í grunninnkomu fyrir hvern mánuð sem Coruna veiran lamar atvinnulífið. Þó ekki sé líklegt að skilyrðislausar UBI grunninnkomugreiðslur verði sú lausn sem gripið verði til í fylgjum Bandaríkjanna, er þó merkilegt að sjá hversu þörfin um aðgerðir fyrir almenning hefur gert þessa leið til mannréttinda og reisnar að hluta af almennri umræðu, sbr. nýlega umfjöllun í Newsweek. 

Fréttablaðið The Hindu hafði eftir Sonia Gandhi forseta indverska þingsins að þar sem Corona veiran hafi haft áhrif á innkomu milljóna vinnandi fólks sem kallar á yfirgripsmiklar aðgerðir til að létta undir hjá heilum starfsstéttum. Litið er á bæði beinnar grunninnkomu, skattaafslátta og seinkunar á greiðslum lána í þessu samhengi. Greiðslurnar gætu orðið allt að 40 þúsund fyrir þá sem safnað hafa í lífeyrissjóð, en mun minna fyrir aðra. 

Á Nýja Sjálandi er svipaða sögu að segja, þar sem yfirvöld eru að íhuga grunninnkomu sem hluta af aðgerðapakka til að takast á við áhrif Corona veirunnar á atvinnulíf og efnahag fólks. Ekki ólíkt því sem verið er að gera hér á Íslandi, þar sem fyrirtæki geta sótt um fjármagn til ríkisins til að greiða hluta af launum starfsfólks auk þess að fá endurgreiðslur vegna annars tekjumissis. Vissulega eru þetta ekki aðgerðir í anda grunninnkomu fyrir alla. Það má segja að með aðgerðunum séu yfirvöld í það minnsta að hluta til að huga að afkomu almennings, þó það sé gert í gegnum fyrirtæki einvörðungu. 

Í síðustu viku skrifaði svo sagnfræðingurinn Rutger Bregman í The Correspondent um það hvort tími grunninnkomu fyrir alla (UBI) sé í raun kominn. Í greininni nefnir hann mörg dæmi um það hvernig stöðug grunninnkoma hefur hjálpað fólki að koma undir sig fótunum og gera það að betri borgurum og skattgreiðendum sem styðja við þjóðarbúið fremur en að vera samfélagsleg byrði eins og skilyrt bótakerfi og skammtímaaðstoð við tilteknar atvinnugreinar virka fyrir almenning á endanum.

Categories
Um félagið

Ný sýn

Grunn Innkoma Fyrir Alla
Merki BIEN og GIFA er alþjóðlegt

Nú hefur GIFA félag um GrunnInnkomu Fyrir Alla (einnig kallað BIEN Ísland yfirtekið þessa síðu sem Salvör Gissurardóttir hefur veitt okkur til afnota.

Núorðið notum við hugtakið grunninnkoma í stað borgaralaun, þar sem borgaralaun er nokkuð gildishlaðið hugtak og í raun rangnefni þar sem það kom inn í íslensku sem þýðing á ‘borgerløn’ en með því hugtaki fylgdi einnig hugmynd um borgarlegar skyldur til að njóta borgaralauna.

Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og Norðurlöndin tala jafnan um ‘basisinkomst’ og ‘basic income’. Á íslensku hafa hugtökin algild borgaralaun, grunnframfærsla, skilyrðislaus grunninkoma og grunninnkoma mikið verið notuð nýverið.

Okkar sýn snýst um samfélagsúrbætur þar sem fókus hins opinbera verður á að tryggja grunninnkomu allra einstaklinga til að njóta mánaðarlegrar skattfrjálsrar grunninnkomu sem er skilyrðislaus og miðast við lögfest framfærsluviðmið.

Categories
Óflokkað

“Kallar sig Bófaflokk nema öll gengur sú stigamennska út á að hafa kaupið af fátækum listamönnum”

Breskir sjóliðar og sjóræningar frá Barbaríinu berjast á þilfari skips.
Mynd í almenningseign (PD)

Hér á eftir fer bloggpistill sem ég skrifaði árið 2013 um höfundarrétt og meint höfundarréttarbrot. Hvernig tengist það borgaralaunum? Eru tæknibreytingar sem gera auðvelt að hlaða niður bókum og samfélag sem telur að slíkt ætti að stuðla að meira niðurhali og dreifingu bóka verkfæri djöfulsins til þess gerð að hafa kaupið af fátækum listamönnum? Hvernig á þjóðfélag að bregðast við þegar tekjumöguleikar stórra starfsstétta eins og tónlistarmanna og rithöfunda minnka af völdum tækninnar?

Er rétta leiðin að búa til sem mesta lása og girðingar svo fólk geti alls ekki notað tæknina til auðvelda sér aðgengi að efni. Eða er leiðin sú að fara í annars konar samfélag, samfélag þar sem höfundar efnis gefa vinnu sína til þeirra sem vilja njóta og nota, gefa út efni með opnum höfundarleyfi. En hvernig getur slíkt virkað? Höfundar efnis þurfa líka að borða og eiga föt og húsaskjól. Er ekki upplagt að hugsa þetta sem borgaralaun en ekki listamannalaun? Hvers vegna eigum við að halda uppi samfélagi þar sem fáir útvaldir framleiða efni sögur og fræðiefni?

Hér á eftir fer bloggpistill minn frá 12. ágúst 2013:

Guðmundur Andri Thorsson skrifar í Fréttablaðið í dag greinina steldu.net þar sem hann fjallar niðurhal og ræðst harkalega á Pírata og gerir okkur upp meiningar en hann segir í greininni:

Heill stjórnmálaflokkur hefur verið stofnaður utan um þessi mikilsverðu réttindi þess sem situr með hendur í skauti heima í stofu og bíður eftir því að vera skemmt, og kennir sig af stolti við iðju sjóránsmanna fyrri alda og talar í nafni framtíðarinnar. Kallar sig Bófaflokk nema öll gengur sú stigamennska út á að hafa kaupið af fátækum listamönnum.”

Ég fullyrði að það er ekki til að stunda stigamennsku til að grafa undan lífsviðurværi fátækra listamanna að fólk gengur til liðs við Pírata og Píratahreyfing hefur sprottið upp víða um lönd og orðið stjórnmálaafl. Það eru margar ástæður fyrir því að fólk er Píratar en hjá flestum sem hafa fylgst með samfélagsþróun síðustu ára og lifað og hrærst í netheimum og starfað þar er þetta stjórnmálaafl beinlínis orðið til af brýnni þörf, þörf fyrir að sporna við því að samfélag netheima verði að fjötrum og kúgunartæki valdhafa og beygt undir samfélagsgerð sem setur neyslu í forgang og viðurkennir ekki samskipti nema einn sé að selja og annar að kaupa og innsiglar samskipti með peningum.

Þannig samfélag, markaðshyggjusamfélag þess tíma sem við lifum á virkar ágætlega við ákveðnar aðstæður og átti sitt blómaskeið á tímum fjöldaframleiðslu þar sem endalaus eftirspurn var eftir hlutum. En þannig samfélag býr til og viðheldur misskiptingu þannig að sá sem á mikið getur líka keypt mikið og keypt sér aðgang að þekkingu og aðföngum sem efla hann til að verða ennþá ríkari á meðan sá sem á ekkert til að greiða með er útilokaður. Það er af þessari ástæðu að ég sem kennari fylki mér í hóp þeirra sem vilja að sem mest af upplýsingum og þekkingu heimsins þ.e. því sem getur orðið efniviður til bjargálna sé frjáls og ókeypis og öllum aðgengileg við aðstæður sem fólk getur nýtt sér.

Ef bækur eru dýrar og mikið umstang þarf að afla þeirra verður það efni sem er í bókum aðeins aðgengilegt litlum forréttindahópi í samfélaginu. Þannig var um bækur fyrir tíma prentlistar, þá voru þær handrit í eigu höfðingja og ríkra klaustra og það var ekki almenningur sem hafði aðgang að þeirri þekkingu sem þar var. Með prentinu breyttist það, þekking gat breiðst miklu hraðar út og fleiri höfðu aðgengi að þekkingu. Það hafa í þúsundir ára verið til bókasöfn, þekkingarsöfn þar sem fólk gat lesið bækur. En í mörgum samfélögum var og er aðgengi að bókasöfnum forréttindi ákveðinna hópa, forréttindi sem tryggja valdastöðu þeirra og möguleika til að hafa áhrif og ekkert er eins áhrifaríkt til að viðhalda valdaleysi hinna að þeir hafi ekkert aðgengi að þekkingu og upplýsingum. Af hverju ættum við að viðhalda samfélagi sem setur manngerðar hindranir á aðgengi að þekkingu og upplýsingum að því er virðist fyrst og fremst til að auka forskot þeirra sem hafa á þá sem hafa ekki?

Það er engin tilviljun að sá maður sem varð hetja sjálfstæðisbaráttunnar á Íslandi Jón Sigurðsson hafði afar góðan aðgang að bókasöfnum og ýmis konar þekkingu um landshagi, aðgang sem hann fékk fyrst sem kornungur maður sem biskupsritari í Reykjavík hjá þeim manni sem átti hvað best bókasafn á Íslandi.

Veltum fyrir okkur hvort að Jón hefði getað beitt sér á sama hátt í sjálfstæðisbaráttunni ef hann hefði aldrei farið suður og aldrei siglt til Kaupmannahafnar heldur setið alla tíð heima á Hrafnseyri og orðið að moða eingöngu úr þeirri þekkingu sem barst til heimabyggðar hans þá. Á þeim tíma var það reyndar hlutskipti næstum allra kvenna að sitja heima og hafa enga möguleika til að afla sér menntunar annarrar en þeirrar sem barst á heimaslóðir. Það voru höfðingjasynir, synir presta og embættismanna sem sigldu utan til náms og frama.

Nú lifum við á tímum þar sem vel er hægt að afla sér þekkingar án þess að sitja nokkurn tíma undir lindinni á stúdentagarði í Kaupmannahöfn. Af hverju ættum við í dag að búa til og viðhalda sams konar höfðingjaveldi og fyrir hundruðum ára með því að takmarka aðgengi hinna fátækari og vegalausari til þekkingar og upplýsinga?

Það eykur möguleika okkar á að bjarga okkur að hafa sem best aðgengi að þekkingu og upplýsingum. Að sama skapi er það hættulegt ef yfirvöld eða valdamiklir aðilar fá of mikil réttindi til að ráðskast með netaðgengi okkar og vakta hvert okkar spor og andspyrna gegn slíku er ekki síst það sem dregur fólk að Pírötum. Það er knýjandi að vekja athygli á og umræðu um hve hættulegt er að herveldi grá fyrir járnum breytist í lögregluríki á Internetinu og ofsæki almenning og stýri umhverfi þar og umræðu sér í hag til að banna og veikja alla andspyrnu og alla gagnrýni.

Nettæknin er öflug og það eru nógu hræðilegar sögur frá tímum heimstyrjaldar og kaldastríðs og ýmissa einræðisríkja sem færa okkur rök fyrir því hvers vegna við eigum að spyrna fast við öllum tilburðum valdhafa sem líta á þegna sína sem mögulega hryðjuverkamenn og þeirra sem ganga erinda stórra auðhringja sem vilja læsa okkur inn í neyslumynstri sem gerir þá ríka og okkur andlausa, fákæna og fátæka. Það er knýjandi eins og uppljóstranir Snowdens og Wikileaks hafa sýnt.

En það er líka knýjandi að við áttum okkur á því að öll framleiðsla og efnisgerð og þar með talin skapandi skrif og listvinnsla ýmis konar er að breytast, breytast úr því að vera höfundarverk einstaklinga eða vara framleidd af fyrirtæki í að verða síkvik endurgerð þar sem sköpun getur allt eins verið að setja saman hluti frá öðrum og mörkin eru að hverfa – mörkin milli neytanda og framleiðanda og mörkin milli lesanda og rithöfundar sem og ýmsar aðrar markalínur. Kerfi sem passaði vel við prentsamfélag og fjöldaframleiðslusamfélag með skýr mörk er ekkert að virka núna. Peningakerfi nútímans er t.d. að virka ákaflega illa.

Við lifum núna á mótum tveggja skeiða, annars vegar skeiðs fjöldaframleiðslu og skýrt afmarkaðra stofnana og hins vegar á tímum það sem framleiðsla er að breytast, breytast m.a. á þann hátt að vara, hlutir, þjónusta, afþreying og list er sköpuð á sama vettvangi og hún er notuð, sköpuð að miklu leyti á notkunarstað og af notanda. Við erum ekki lengur á tímum þar sem eru lesendur og hlustendur með skýrt afmörkuð hlutverk sem hvergi skarast, við erum á leið inn í tíma gerenda, inn í gerendamenningu. Einn liður í því er að sagnagerð og það sem áður var bókmenntir er að breytast í einhvers konar ævintýraleiki sem geta haft margar endingar og margraddaða og samflækta kóra í síbylju Netsins. Og margir verða höfundar að einu verki, ekki bara einn fátækur listamaður.

Við lifum á tímum remixsins, endursköpunar úr annarra verkum og sú endurblöndunarlist spratt upp úr tónlist en mun og hefur teygt sig í aðrar greinar og líka yfir í framleiðslu og þá fyrst í stafræna framleiðslu. Við höfum séð hreyfingar spretta upp í Netheimum sem taka mið af þessum veruleika og skora staðnað kerfi eignavarinna réttinda á þekkingu og forskriftum á hólm. Hér má nefna samfélög um opinn hugbúnað og samfélög um opna þekkingu (t.d. Wikipedia).

Hér á eftir fer bein tilvitnun (skáletruð) í grein Guðmundar Andra (vona að mér sé heimild að birta þetta hérna, ég hef það milli gæsalappa og inndregið og skáletrað og vona að ég sé ekki að fremja höfundarréttarbrot á að vitna í orð hans þar sem ég þarf þess í minni umfjöllun um hans pistil):

Þannig má velta fyrir sér röksemdum þeirra sem aðhyllast frjálst niðurhal á kvikmyndum, tónlist og bókum. Í fyrsta lagi, segja þau, er vonlaust að koma í veg fyrir meirihlutann af þessu. Í öðru lagi er það forneskja að neytandinn geti ekki sjálfur náð sér í þann varning sem hann hefur áhuga á undir eins og honum þóknast. Og í þriðja lagi er höfundarrétturinn úreltur.

Þetta eru falsrök. Það að erfitt sé að koma alls staðar með lögregluaðgerðum í veg fyrir einhverja mannlega iðju getur aldrei táknað að samfélagið eigi þar með að fallast á hana. Boð og bönn samfélagsins snúast ekki fyrst og fremst um glæpi og refsingu heldur öllu fremur um sjálfsmynd samfélagsins og sjálfsmynd þeirra einstaklinga sem það mynda – rétt og rangt – almennt siðferði. Er ég manneskja sem getur lifað með því að taka réttmæta eign annarra? Erum við samfélag sem getur lifað með því að líða ránskap?

Það að tæknilega sé mögulegt að gera eitthvað gerir það ekki sjálfkrafa æskilegt. Það að mig langi í eitthvað táknar ekki sjálfkrafa að mér beri að fá það fyrirhafnarlaust.

Neytandinn über alles

Þegar ég sæki mér bíómynd á síðuna deildu.net, sem af stolti auglýsir að hún bjóði nú upp á íslenskt efni, þá er ég ekki bara að taka það ófrjálsri hendi sem mér ber að borga fyrir heldur er ég líka að lýsa því yfir að það fólk sem haft hefur fyrir því að skapa þetta listaverk eigi ekki að fá greitt fyrir vinnu sína. Ég er með þessum gjörningi að lýsa því yfir að matráðsfólkið við gerð myndarinnar eigi ekki að fá greitt fyrir matargerðina, ekki bílstjórarnir sem vinna við gerð myndarinnar, ekki kvikmyndatökufólkið, ekki smiðirnir sem gera leikmyndina, ekki klipparinn, ekki leikstjórinn, ekki leikararnir, ekki þau sem finna tökustaðina, ekki handritshöfundurinn – enginn. Þau hafa – segi ég með þessum gjörningi – engan rétt á launum fyrir vinnu sína: ég hef allan réttinn mín megin vegna þess að ég er nefnilega neytandi.

Hið sama gildir um bókagerð og öll afleiddu störfin sem hljótast af iðju skáldsins og hið sama gildir um tónlistina: réttur neytandans til að njóta listarinnar er samkvæmt þessum þankagangi æðri rétti listamannsins til að fá greitt fyrir vinnu sína. Heill stjórnmálaflokkur hefur verið stofnaður utan um þessi mikilsverðu réttindi þess sem situr með hendur í skauti heima í stofu og bíður eftir því að vera skemmt, og kennir sig af stolti við iðju sjóránsmanna fyrri alda og talar í nafni framtíðarinnar. Kallar sig Bófaflokk nema öll gengur sú stigamennska út á að hafa kaupið af fátækum listamönnum.”

Guðmundur Andri sér hlutskipti sitt og annarra listamanna sem fátækir puðarar sem eru ofurseldir því að selja vöru sína á markaði, selja til þeirra sem eru núna að niðurhala efni ókeypis og það sé tap listamannanna. Það má líka lesa milli lína í pistli Guðmundar Andra þá sýn að listamaður sé eini skapandi sinna höfundarmerktu verka og þess vegna eigi hann einn höfundarrétt á þeim.

Ekkert gæti verið meira fjarri sanni. Það er einungis lítill hluti af verði listverks sem rennur til listamanns í venjulegu markaðskerfi, mestur hlutinn fer í alls konar milliliði og söluaðila. Opinberir aðilar á Íslandi styðja við listsköpun á ýmsan hátt og greiða m.a. völdum listamönnum laun. Ef listsköpun þeirra er þess eðlis að hún er elítulist sem aðeins fáir útvaldir fái notið vegna þess að hún kostar svo mikið, hvers vegna er þá verið að niðurgreiða slíka list af fé almennings? Væri ekki skynsamlegra að fella niður listamannalaun í núverandi mynd og borga í staðinn listamönnum fyrir að gefa verk sín út með opnum höfundarleyfum (CC leyfum) þannig að verkin séu öllum aðgengileg?

Og hversu mikið á listamaður sína sögu, spratt hún fram úr einrúmi án tengsla við allar þær raddir sem ómuðu meðal almennings? Nei. Margir listamenn hafa nýtt sér og drukkið í sig örlagasögu raunverulegs fólks og fært það í búning í skáldsögum sínum. Þannig saug Halldór Laxness í sig ævisögu skáldsins á Þröm og færði í glitbúning Ljósvíkingsins og núna nýverið var einmitt umræða sem mig minnir að Helga Kress hafi staðið fyrir þar sem nokkrar nýlegar skáldsögur voru krufðar og farið í hvernig höfundar svelgdu í sig líf raunverulegs fólks án samþykkis.

Vigdís Grímsdóttir lýsir svoleiðis sköpun snilldarlega í skáldsögu sinni Stúlkan í skóginum, í kossinum þar sem brúðugerðarkona sýgur lífsorku út úr stúlkunni til að glæða brúður sínar lífi. Og hve margir listamenn fyrr og síðar hafa ekki verið í stöðu listasmiðsins Völundar sem var í haldi konungs að vinna að smíðum sínum og var örkumlaður og fjötraður af þeim sem hann vann fyrir til að hann færi ekkert.

Það hafa margir bent á að listamenn fá flestir afar litla umbun fyrir verk sín og bækur seljast ekkert nema fyrstu tvö árin eftir að þær koma út. Það er enginn að græða á því að frysta verk og þekkingu og sögur og list inn í frystigeymslum hefðbundins höfundarréttar. Það hafa sprottið upp öðruvísi kerfi, kerfi þar sem höfundarrétthafar gefa efni sitt út með opnum höfundarrleyfum og eins og staðan er núna þá stefnir allt í það að við sem viljum fara að lögum höfum ekkert val nema að sniðganga algjörlega efni með hefðbundnum höfundarrétti. Þetta getum við von bráðar vegna þess að það verður sífellt til meira af efni með opnum leyfum.

En þetta þýðir að við höfum ekkert aðgengi að stórum hluta nútímamenningar, Við erum svipt aðgengi að okkar eigin menningu, við megum ekki tala um hana, við megum ekki enduróma hana eða nota í okkar eigin verk og okkar samræðu. Sá tími mun koma að það mun renna upp fyrir fólki hversu miklir fjötrar og óréttlæti og mannréttindabrot þetta eru.

Ég nefndi sem dæmi að ég má ekki birta mynd af Hallgrímskirkju eða Skálholtskirkju á Wikipedia vegna þess að þessar byggingar eru höfundarrréttarvarin hugverk arkitekta og sá höfundarréttur rennur ekki út fyrr en 70 árum eftir dauða höfundar. En málið er þannig núna að menning sem ekki lagar sig að nýjum tíma, að nýjum veruleika og nýrri miðlun og heldur í svona reglur er menning sem er að deyja og hún deyr kannski út á skemmri tíma en 70 árum.