Categories
Skrif um grunninnkomu

Niðurgreiddar flugferðir fyrir fólk á landsbyggðinni

Innanlandsflug á Íslandi er geysilega dýrt, svo dýrt að fólk sem býr lengst frá höfuðborginni og er ekki að fara á vegum vinnuveitenda eða ríkisstofnana hefur ekki tök á að ferðast í flugi heldur leggur á sig gríðarlangar ökuferðir. Innanlandsflugið á Íslandi er hins vegar mikið styrkt af hinu opinbera en er samt óheyrilega dýrt.

Það er auðvelt að sjá að slíkt kerfi er ekki að gagnast vel þeim sem búa langt frá höfuðborginni og það er mikill aðstöðumunur og valdamunur á milli Íslendinga varðandi búsetu. Nú er á döfinni að niðurgreiða flugferðir þannig að hver íbúi á landsbyggðinni fái niðurgreiddar ákveðið margar flugferðir á ári. Það er gott skref en þetta skref virðist stigið meira með hliðsjón af flugfélögum sem berjast í bökkum en af því að þjóna fólki sem býr á stöðum langa vegu frá höfuðborgarsvæðinu. Hefði ekki verið betra fyrir fólk á landsbyggðinni að það hefði fengið ákveðna upphæð á ári og gæti notað þá upphæð í flugferðir?

Tómstundastyrkur

Fyrir mörgum árum var komið á tómstundastyrk í flestum sveitarfélögum. Foreldrar fá úthlutað upphæð sem þeir geta varið í tómstundastarf barna sinna og greiða svo sjálfir það sem fer fram úr því.

Skilyrðislaus styrkur eða skilyrtur styrkur

Tómstundastyrkur sem öll börn fá og flugferðastyrkur sem allir á landsbyggðinni fá eru af sama toga og borgaralaun en það má færa rök fyrir að því meira sem slíkir styrkir eru skilyrtir þeim mun verr gagnast þeir þeim sem verst standa. Ef styrkur er settur þannig upp að viðtakandi styrks verði alltaf að borga 30% eða 50% þýðir það að þeir sem standa verst eiga erfiðast með að réttlæta að verja fé til þess sem er niðurgreitt.

Hér má nefna kostnað við leikskóla. Kostnaður við leikskóla er oftast mikið niðurgreiddur af sveitarfélögum og flestir foreldrar sem hafa sæmilegar tekjur hugsa sig ekki um að nýta þetta menntunartækifæri fyrir börn sín. En fyrir þá sem hafa litlar eða engar tekjur og enga atvinnu og hugsanlega annan menningaruppruna og leikskólinn starfar eftir kann málið að líta öðruvísi út.

Borgaralaun eru besta byggðastefnan

Það er góður vilji á bak við margar stjórnvaldsákvarðanir en oft skín einnig í gegn að ákvörðun er tekin með hagsmuni atvinnufyrirtækja í huga. Fyrir einhverjum misserum var í útgerðarplássum landsins stór stétt beitningafólks í landi, fólk sem vaknaði fyrir allar aldir og beitti fiskilínur áður en bátarnir lögðu upp. Þetta fyrirkomulag mun núna vera aflagt. Útgerðarmenn fá ekki lengur meiri kvóta ef þeir beita í landi og þar með fluttist sú vinna út á sjó.

Myndband af beitningafólki að störfum við höfnina í Bolungarvík árið 2007. Ég tók þetta myndband einn morguninn.

Ég rakst á pistil á Hringbraut þar sem vitnað er í orð mín einmitt um beitningamenn og útgerðarmenn en ég tengdi þá umræðu byggðastefnu og borgaralaunum. Hér fyrir neðan er pistillinn:

Borgaralaun eru eina skynsemin. Á það hafa margir hagfræðingar og samfélagsrýnar bent. Í samfélagi okkar þarf alltaf færri og færri vinnustundir í samfélagi þar sem framleiðsla, þjónusta, verslun og dreifing verður sífellt sjálfvirkari og vélvæddari.”

Þetta segir Salvör Gissurardóttir, aðstoðarprófessor við Háskóla Íslands í athugasemd við frétt á eyjan.is  þar sem sagði af hæðnisskotinni gagnrýni forsætisráðherra í ræðu sem hann flutti á Viðskiptaþingi en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fór þá hörðum orðum um tillögu Pírata að skoða hvort Borgaralaun séu skynsamleg leið til að auka jöfnuð.

Sigmundur Davíð gerði afar lítið úr hugmyndinni í ræðu sinni. Hann taldi að ríkið hefði engin efni á borgaralaunum. Salvör er á öðru máli og bendir m.a. á að róbotar muni æ-í auknum mæli leysa mannshendur af hólmi eins og fjallað var um í frétt hringbrautar í gær. Ekki sé hægt að jafna lífskjör mneð vinnu sem ekki sé til lengur, að mati Salvarar. Má vísa til þess að fjölgun starfa sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir eru einkum verksmiðjustörf sem spáð er að láti undan gervigreind og róbótum.

“Skoðum aðeins hvernig borgaralaun gætu virkað. Núna er haldið uppi vinnu í sumum byggðum með því t.d. að úthluta útgerðarmönnum aukakvóta til að ráða landverkafólk til að beita fyrir sig í landi. Þetta er tilbúin vinna, atvinnubótavinna og landverkafólk fær bara vinnu vegna þess að ríkið úthlutar útgerðarmanninum leyfi til að veiða meira ef hann hefur fólk í svoleiðis vinnu. Er svona gervivinnusköpun nauðsynleg og skynsamleg? Er ekki betra að landverkafólk fái bara borgaralaun til að búa á stöðunum? Sama má segja um byggðina í Grímsey. Þar fengu útgerðarmenn bæði byggðakvóta og svo línuívilnun og það hefur nokkuð verið í fjölmiðlum hvernig útgerðarmenn þar fóru með ungt verkafólk. Er það svona samfélag sem við viljum? Þar sem þeir sem þegar eiga mikið og hafa mikil völd eru settir í lykilaðstöðu við að skaffa þeim sem ekki hafa vinnu störf? Væri ekki miklu skynsamlegri leið í byggðastefnu að byrja borgaralaun með því að innleiða þau í brothættum byggðum? Er það ekki skynsamlegasta byggðastefnan?” Spyr Salvör.

Þeir sem hæðast að borgaralaunum

Ég velti fyrir mér hvort sömu menn og hæðast að borgaralaunum og finna þeim allt til foráttu séu líka á móti öðrum ókeypis gæðum samfélags okkar eins og heilbrigðisþjónustu og menntun. Eða eru þeir á móti tómstundastyrk fyrir börn eða flugferðastyrk fyrir landsbyggðafólk? Eða gjaldfrjálsum leikskóla?

Hagsmunir framleiðenda

Það fer gríðarlega mikið í alls konar niðurgreiðslur og styrki á Íslandi sem sagðir eru vera fyrir almenning, það nægir að nefna styrki til landbúnaðarframleiðslu. En er þetta ekki einmitt málið, hugsun margra stjórnmálamanna er fyrst og fremst á framleiðsluna og að auka hana sem mest en ekki að bæta lífsgæði og valfrelsi almennings.