Categories
Skrif um grunninnkomu

Grunninnkoma og heimsmarkmið fyrir alla

Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna eru 17 yfirgripsmikil atriði sem nær öll ríki heimsins hafa lofað að fylgja til að ná fram bættum heimi árið 2030. Þrátt fyrir ítarleg markmið og undirmarkmið er þjóðum heimsins í sjálfsvald sett hvarnig ná á árangri, eðlilega. Hér er smá yfirferð yfir það hvernig grunninnkoma fyrir alla (GIFA), sem á ensku kallast Universal Basic Income, getur hjálpað innleiðingu meirihluta heimsmarkmiðana.

GIFA styður svo sannarlega við fyrsta lið í heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna um að koma í veg fyrir fátækt, af því að þegar grunninnkomunni verður þannig háttað að munu allir fá innkomu yfir fátæktarmörkum. Vissulega mun áfram verða til “relatíf fátækt” þar sem sumir munu geta átt meira og aðrir minna. Grunninnkoman er þannig stökkpallur á vinnumarkað fyri þá sem vilja meira en lágmarks grunnþarfir.

This image has an empty alt attribute; its file name is L9VLpS4cOiRNtVaoELxueOErW5IAYcJFfi1Hso-nRV5J4BdweXw0HUESXXol0oAWhAF4sc9E55ycGpictU1GNjh10xG36PMbFz3_qaezSATgn6_0MMkZ8F-FU3_jJw8klhUthewO

GIFA styður einnig beint við annann lið heimsmarkmiðanna um að útrýma hungri, enda á grunninnkoman að vera reiknuð þannig að allir hafi grunnþarfir uppfylltar, þar á meðal eru matur, klæði og húsnæði. Vissulega fer fólk líklega mismunandi vel með innkomuna sína og sem fyrr er vert að taka fram að GIFA er hugsað sem grunnframfærsla sem hvetur fólk til að vinna sér inn meira til að sinna áhugamálum, nautnum og öðrum lífsgæðum.

3: Heilsa og vellíðan

Þriðji liður heimsmarkmiðanna er heilsa og vellíðan fyrir alla. Þarna er ekki hægt að segja að GIFA geti haft jákvæð óbein áhrif. Fólk verður frjálst frá áhyggjum vegna mánaðarlegrar grunninnkomu og því undir minna álagi. Þá má búast við að streyta og geðræn vandamál vegi minna en núna þegar margir þurfa að vinna meira en eina vinnu til að ná endum saman. 

4: Menntun fyrir alla

Fjórða markmiðið er menntun fyrir alla. Þar er GIFA aðeins með lauslegan snertiflöt, sem skýrist af því að fleiri fullorðnir fara og mennta sig ef grunninnkoman hefur verið tryggð í GIFA. Það er margoft búið að sýna fram á þetta með tilraunum. Slíkt er af hinu góða, enda er góð menntun undirstaðan að aukinni launaðri innkomu og bættum lífsgæðum.

Fimmta markmiðið er jafnrétti kynjanna. Þar getur GIFA spilað stórt hlutverk. Það hefur nefnilega sýnt sig í tilraunum með skilyrðislausa grunninnkomu erlendis að konur öðlast aukið frelsi frá mökum sínum við það að grunninnkoman sé regluleg og örugg. Þá hafa þær sótt í nám og bætt lífskjör sín. Í mörgum tilfellum gátu makar losnað úr óhamingjusömu sambandi þegar mánaðarlegra grunninnkoman er tryggð.

Hoppum næst yfir í áttunda sjálfbærnimarkmið Sameinuðu Þjóðanna, það gengur út á að viðhalda sjálfbærum hagvexti og mannsæmandi atvinnutækifærum fyrir alla. Þar hefur GIFA bæði bein og jákvæð áhrif, enda hefur atvinnuþátttaka aukist allstaðar þar sem grunninnkoman hefur verið prófuð. Fólk nýtir grunninnkomuna sem stökkpall til að láta drauma sína rætast.

Grunninnkoma fyrir alla hefur einnig jákvæð áhrif á níunda markmiðið um aukna nýsköpun og sjálfbæra uppbyggingu. Fjöldi fólks er með allt aðra styrkleika og drauma en það er að þyggja laun fyrir í dag. GIFA auðveldar þeim sem geta, vilja og þora að skapa eigin tækifæri, standa á eigin fótum og stofna sprotafyrirtæki, vera frumkvöðlar. Um leið eykst fjölbreytni og nýsköpun í atvinnulífinu. 

Í tíunda markmiði S.Þ. er GIFA svo sannarlega í essinu sínu því aukinn jöfnuður einstaklinga er einmitt einn af helstu kostum þess að innleiða grunninnkomu fyrir alla. Jöfunuður mun aukast á milli kynja, milli kynþátta, og milli borgar og landsbyggðar, svo eitthvað sé nefnt. Það lýsir sér í því að allir fá jafnan grunn greiddan út mánaðarlega, óháð búsetu, kyni eða kynþætti.  

Ýmsir sérfræðingar hafa leitt líkur að því að GIFA muni auka á sjálfbærni samfélaga, sem er einmitt ellefta heimsmarkmiðið. Það má einmitt búast við að fleiri muni finna jafnvægi milli atvinnu, frítíma og fjölskyldu, fremur en að vinna myrkranna á milli. Þá má búast við að hagnaðardrifna neyslusamfélagið sem við erum vön geti orðið meira ánægjudrifið og hætti að vaxa út í hið óendanlega. 

Grunninnkoma fyrir alla á jafnmikið við um tólfta heimsmarkmiðið eins og það ellefta, þar sem búast má við að fólk sem nýtur grunninnkomu án afskipta ríkisins verði ábyrgara fyrir eigin velferð, mennti sig betur og taki í auknum mæli þátt í ákvarðanatöku um atriði og stjórnsýslu sem hefur áhrif á líf þeirra. Fleiri munu stunda framleiðslu og smáverslun með varning úr nærumhverfinu. 

Sextánda markmiðið snýst um frið og réttlæti. Þar má segja að grunninnkoma fyrir alla hafi mikil bein áhrif. Enda matast erjur, skærur og styrjaldir oftar en ekki á fátækt, mismunun og glötuðum tækifærum einstaklinga. Mánaðarlega greidd grunninnkoma fyrir alla er einnig skref í átt að auknu réttlæti, sér í lagi hönd í hönd við aukið gagnsæi og aukið lýðræði. 

Ein helsta gagnrýnin á heimsmarkmiðin er mikill kostnaður við að ná þeim. En þegar málið er hugsað til enda þá er nokkuð ljóst að kostnaðurinn við að gera ekkert í málunum er líklega mun meiri. Grunninnkoma fyrir alla er ekki til þess gerð að letja fólk til að taka þátt í vinnumarkaði og samfélaginu, heldur til að veita fólki frelsi til að velja sjálft hvernig það tekur þátt.

Það er afar mikilvægt að huga mun betur að grunninnkomu fyrir alla, stundum kallað borgaralaun, ef íslendingum og öðrum ríkjum heims er einhver alvara í að láta heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna að veruleika. Nú hafa 193 ríki heimsins skuldbundið sig að uppfylla markmiðin og Ísland er þar á meðal. Heimsmarkmið er varða lífríki, loftslag, orkumál og vatnsgæði þurfa síðan aðrar lausnir en skilyrðislausa grunninnkomu.

Grunninnkoma fyrir alla er ein af mikilvægustu aðgerðum til að ná fram bættum lífskjörum fyrir sem flesta. Ef GIFA er innleitt á sama tíma og sjálfbærnimarkmið, velferðarmarkmið og viðskiptamarkmið, með skýrri aðgreiningu á því hvaða málaflokkar fylgja markaðslögmálum og hvaða málefni tilheyra samfélagslegri velferð, má búast við að heimsmarkmiðin geti nást og leitt til framfara fyrir mannkynið.