Categories
Skrif um grunninnkomu

Grunninnkoma, hvernig er hún reiknuð?

Hagfræðingar sem eru  sammála um að grunninnkoma sé nauðsynleg segja að greiðslan þurfi einnig að hvetja fólk að sækja á vinnumarkað. Þannig þarf að stemma grunninnkomu fyrir alla þannig af að mánaðarlega upphæð letji ekki fólk til vinnu.

Grunninnkoman

Með ofangreint í huga er ljóst að mánaðarlega grunninnkoman verður að reikna miðað við lágmarksþarfir og lífsnauðsynjar eingöngu. Ótrúlegt en satt þá hafa öll ríki í heiminum reiknað slíkan kostnað per einstakling um langt skeið, en það er daglegur/mánaðarlegur kostnaður vegna gæslu fanga í fanga- og nauðungarvistmanna. Flest ríki bjóða einnig framfærslustyrki fyrir atvinnulausa og óvinnufæra.

Þó verður að segjast að á Íslandi er nærtækt að skoða hvaða viðmið bankar, lánasjóðir og ríkisstofnanir nota til að reikna út greiðslugetu hvers einstaklings. Bæði Íbúðalánasjóður og Íslandsbanki gera ráð fyrir að framfærslukostnaður einstaklings án húsnæðiskostnaðar og samgöngukostnaðar séu tæpar 120 þúsund krónur á mánuði, segjast miða við útreikninga verlferðarráðuneytis.

Samræma þarf útreikninga á því hvar fátæktarmörk liggja, hver lágmarks grunnframfærsla þarf að vera og hversu há grunninnkoma fyrir alla á að vera. Þetta þarf allt að vera ein og sama upphæðin og miða þarf skattleysismörk við sömu tölu.

Reiknivél velferðarráðuneytis um neysluviðmið sem er kvörðuð miðað við neysluverð árið 2019 segir hins vegar að grunnviðmið framfærslukostnaðar án húsnæðis sé 80.396 krónur, óháð því hvar á landinu maður býr. 

Umboðamaður skuldara er með sinn eigin útreikning á framfærsluviðmiðum, þar gert ráð fyrir um ca 109.959 krónum að meðaltali í grunnframfærslu og 52.159 krónum í samgöngukostnað, en í reiknivél embættisins er notendum boðið að setja inn eigin húsnæðiskostnað sem bætist við framfærsluna. Viðmið umboðsmanns skuldara byggja á gögnum úr rannsókn Hagstofu Íslands á útgjöldum heimilanna 2013-2016.

Síðan er Lánasjóður Íslenskra Námsmanna með enn eina útgáfu á útreikningum grunnframfærslu. Þar er gert ráð fyrir því að einstaklingur þurfi 109.530 krónur á mánuði til að lifa og 75.276 kr til viðbótar í húsnæðiskostnað á mánuði til að lifa út skólaárið, sem sagt 9 mánuði ársins. Ekki kemur fram hvort samgöngukostnaður sé inni í þessum tölum LÍN

Neysluviðmið velferðarráðuneytis

Aftur að velferðaráðuneyti. Á síðu ráðuneytisins stendur: Dæmigert viðmið á að endurspegla útgjöld íslenskra heimila. Fyrir flesta útgjaldaflokka er dæmigert miðgildi útgjalda er reiknað. Hér er þó ekki um lúxusviðmið að ræða. Þess til viðbótar er reiknað grunnviðmiðið sem gefur vísbendingar um hvað fólk þarf að lágmarki til að framfleyta sér.

Útgjaldaflokkar reikninga velferðarráðuneytis innihalda kostnað við kaup á mat, drykkjarvörum og öðrum dagvörum heimilis, fötum og skóm. Heimilisbúnaði, raftækjum, lyfjum og meðalútgjöldum vegna heilsugæslu, vegna síma og nets, menntunar, auk annarrar þjónustu við heimili (hiti-vatn-rafmagn). Svo eru þar inni almenningssamgöngur og lágmarks tómstundakostnaður.

Reyndar tekur maður eftir því að í þessi reiknuðu framfærsluviðmið opinberra aðila vantar alltaf einn eða tvo kostnaðarliði, svo sem húsnæði, samgöngur, tryggingar, hita, rafmagn, leikskóla/skólagjöld fyrir börn. Það er því erfitt að bera saman, enda á að vera starfandi nefnd á vegum félagsmálaráðuneytis til að finna út “hið eina rétta” í þessum málum.

Húsnæðiskostnaður

Mat á húsnæðiskostnaði vantar hjá velferðarráðuneytinu, en sá er að mínu mati akkilesarhæll íslenska velferðarkerfisins, þar sem sjálfseignastefna í húsnæðismálum, verðtryggingarblæti og ofurlánastefna hafa takmarkað leigumarkað húsnæðis og önnur úrræði verulega. Kostnaður við rekstur eigin bifreiða ekki heldur reiknaður, enda mismunandi þörfum saman að jafna hjá ólíku fólki. 

Jafnvel við núverandi aðstæður er mögulegt að reikna kostnað per einstakling á leiguhúsnæði í undir 100 þúsund kr. per mann ef um er að ræða sambúð eða samleigu með öðrum. Þannig má ætla að úrræðagóðir einstaklingar geti komist af með fremur lága grunninnkomu. En auðvitað koma “einbúar” og einstæðir foreldrar verst út úr slíkum reikningum. 

Yfirvöld ættu því að hvetja til fjölbreytts leigumarkaðar og annarra úrræða þar sem nægilegt húsnæði verður á hagstæðu leiguverði sem hentar einstaklingum og einstæðum foreldrum. Slíkt hlýtur að vera þjóðhagslega hagkvæmt þar sem þessir aðilar eiga þá möguleika á að safna fé til að tryggja sér betri framtíð. Frelsið felst í því að geta valið. 

Að lokum verður að nefna að með því að reikna grunninnkomuna lága, þ.e. við lágmarksframfærsluviðmið er öllum landsbúum tryggður sami réttur til lífs og það án skilyrða og krónuskerðinga. Barátta um lágmarkslaun sem verða umtalsvert hærri en grunninnkoman verður áfram mikilvæg og nauðsynleg til að tryggja atvinnuþátttöku fólks, því flestir vilja jú fá eitthvað meira en lágmarkið til að framfleyta sér.

Heimildir:
– Neysluviðmið velferðarráðuneytis:
https://www.stjornarradid.is/verkefni/felags-og-fjolskyldumal/neysluvidmid/
– Lánasjóður Íslenskra Námsmanna (LÍN)
https://www.lin.is/um-lin/log-og-reglur/uthlutunarreglur-2019-2020
– Umboðsmaður skuldara
https://www.ums.is/is/adstod-vid-greidsluvanda/framfaerslu-reiknivel
– Frétt í Eyjunni á vef DV, 29.10.2019
https://www.dv.is/eyjan/2019/10/29/sjadu-upphaedina-sem-thu-att-ad-geta-lifad-neysluvidmid-rikisins-uppfaerd/
– Vefsíður Íbúðalánasjóðs og Íslandsbanka (skoðað 10.6.2020).