Categories
Skrif um grunninnkomu

Hrakvinna og hark

Píranafiskar í leit að æti

Ég gekk fram hjá kaffihúsi í miðbænum í Reykjavík í gær ásamt hópi fólks. Einn sagði “Þarna vinnur stúlka sem ég þekki, það er víst þannig núna að enginn hefur neitt atvinnuöryggi, sá sem rekur staðinn póstar á facebook að það vanti fólk á ákveðna vakt og þau sem vinna á staðnum stökkva strax á vaktirnar eins og píranafiskar.”

Þannig virkar harkið á vinnumarkaðnum í dag. Er fólkið sem býr við þessar aðstæður í dag ekki í sömu sporum og faðir minn og aðrir daglaunamenn og hafnarverkamenn í Reykjavík voru í fyrir sjötíu árum? Eru þau sem núna bíða eftir útkalli um að manneskju vanti á vakt ef til vill í verri sporum en hafnarverkamenn fyrri tíma? Á þeim tíma vantaði erfiðisvinnufólk í mörg störf en núna fjarar undan störfum hraðara en heimurinn hitnar. Sjálfvirkni og gervigreind og tæknivæðing sópa vinnuafli til hliðar. Og samfélag síðkapítalismans býr til nýja stétt sem sífellt stækkar. Stéttin hefur verið nefnd harkarastétt (e. precariat) og verkalýðsforingjar hafa kallað þá iðju sem þessari stétt býðst hrakvinnu (e. precarious work).

Það sem einkennir þessa nýju stétt er ótrygg kjör varðandi atvinnu. Það er ekkert sem bendir til annars en harkarastéttin verði stærri og stærri og þær aðstæður sem eru í heiminum núna munu ekkert gera nema flýta fyrir þróuninni, flýta fyrir vélvæðingu og sjálfvirkni og fækka störfum.

Það er við svona aðstæður sem við þurfum borgaralaun eða UBI (grunnframfærslu fyrir alla).

Tenglar

Precarious Work, Unemployment Benefit Generosity and Universal Basic Income Preferences: A Multilevel Study on 21 European Countries

Coronavirus may drive change in precarious employment

Where next for the gig economoy and precarious work post Covid-19

Digitalisation and precarious work practices in alternative economies: Work organisation and work relations in e-cab services

Categories
Skrif um grunninnkomu

Grunninnkoma, hvernig er hún reiknuð?

Hagfræðingar sem eru  sammála um að grunninnkoma sé nauðsynleg segja að greiðslan þurfi einnig að hvetja fólk að sækja á vinnumarkað. Þannig þarf að stemma grunninnkomu fyrir alla þannig af að mánaðarlega upphæð letji ekki fólk til vinnu.

Grunninnkoman

Með ofangreint í huga er ljóst að mánaðarlega grunninnkoman verður að reikna miðað við lágmarksþarfir og lífsnauðsynjar eingöngu. Ótrúlegt en satt þá hafa öll ríki í heiminum reiknað slíkan kostnað per einstakling um langt skeið, en það er daglegur/mánaðarlegur kostnaður vegna gæslu fanga í fanga- og nauðungarvistmanna. Flest ríki bjóða einnig framfærslustyrki fyrir atvinnulausa og óvinnufæra.

Þó verður að segjast að á Íslandi er nærtækt að skoða hvaða viðmið bankar, lánasjóðir og ríkisstofnanir nota til að reikna út greiðslugetu hvers einstaklings. Bæði Íbúðalánasjóður og Íslandsbanki gera ráð fyrir að framfærslukostnaður einstaklings án húsnæðiskostnaðar og samgöngukostnaðar séu tæpar 120 þúsund krónur á mánuði, segjast miða við útreikninga verlferðarráðuneytis.

Samræma þarf útreikninga á því hvar fátæktarmörk liggja, hver lágmarks grunnframfærsla þarf að vera og hversu há grunninnkoma fyrir alla á að vera. Þetta þarf allt að vera ein og sama upphæðin og miða þarf skattleysismörk við sömu tölu.

Reiknivél velferðarráðuneytis um neysluviðmið sem er kvörðuð miðað við neysluverð árið 2019 segir hins vegar að grunnviðmið framfærslukostnaðar án húsnæðis sé 80.396 krónur, óháð því hvar á landinu maður býr. 

Umboðamaður skuldara er með sinn eigin útreikning á framfærsluviðmiðum, þar gert ráð fyrir um ca 109.959 krónum að meðaltali í grunnframfærslu og 52.159 krónum í samgöngukostnað, en í reiknivél embættisins er notendum boðið að setja inn eigin húsnæðiskostnað sem bætist við framfærsluna. Viðmið umboðsmanns skuldara byggja á gögnum úr rannsókn Hagstofu Íslands á útgjöldum heimilanna 2013-2016.

Síðan er Lánasjóður Íslenskra Námsmanna með enn eina útgáfu á útreikningum grunnframfærslu. Þar er gert ráð fyrir því að einstaklingur þurfi 109.530 krónur á mánuði til að lifa og 75.276 kr til viðbótar í húsnæðiskostnað á mánuði til að lifa út skólaárið, sem sagt 9 mánuði ársins. Ekki kemur fram hvort samgöngukostnaður sé inni í þessum tölum LÍN

Neysluviðmið velferðarráðuneytis

Aftur að velferðaráðuneyti. Á síðu ráðuneytisins stendur: Dæmigert viðmið á að endurspegla útgjöld íslenskra heimila. Fyrir flesta útgjaldaflokka er dæmigert miðgildi útgjalda er reiknað. Hér er þó ekki um lúxusviðmið að ræða. Þess til viðbótar er reiknað grunnviðmiðið sem gefur vísbendingar um hvað fólk þarf að lágmarki til að framfleyta sér.

Útgjaldaflokkar reikninga velferðarráðuneytis innihalda kostnað við kaup á mat, drykkjarvörum og öðrum dagvörum heimilis, fötum og skóm. Heimilisbúnaði, raftækjum, lyfjum og meðalútgjöldum vegna heilsugæslu, vegna síma og nets, menntunar, auk annarrar þjónustu við heimili (hiti-vatn-rafmagn). Svo eru þar inni almenningssamgöngur og lágmarks tómstundakostnaður.

Reyndar tekur maður eftir því að í þessi reiknuðu framfærsluviðmið opinberra aðila vantar alltaf einn eða tvo kostnaðarliði, svo sem húsnæði, samgöngur, tryggingar, hita, rafmagn, leikskóla/skólagjöld fyrir börn. Það er því erfitt að bera saman, enda á að vera starfandi nefnd á vegum félagsmálaráðuneytis til að finna út “hið eina rétta” í þessum málum.

Húsnæðiskostnaður

Mat á húsnæðiskostnaði vantar hjá velferðarráðuneytinu, en sá er að mínu mati akkilesarhæll íslenska velferðarkerfisins, þar sem sjálfseignastefna í húsnæðismálum, verðtryggingarblæti og ofurlánastefna hafa takmarkað leigumarkað húsnæðis og önnur úrræði verulega. Kostnaður við rekstur eigin bifreiða ekki heldur reiknaður, enda mismunandi þörfum saman að jafna hjá ólíku fólki. 

Jafnvel við núverandi aðstæður er mögulegt að reikna kostnað per einstakling á leiguhúsnæði í undir 100 þúsund kr. per mann ef um er að ræða sambúð eða samleigu með öðrum. Þannig má ætla að úrræðagóðir einstaklingar geti komist af með fremur lága grunninnkomu. En auðvitað koma “einbúar” og einstæðir foreldrar verst út úr slíkum reikningum. 

Yfirvöld ættu því að hvetja til fjölbreytts leigumarkaðar og annarra úrræða þar sem nægilegt húsnæði verður á hagstæðu leiguverði sem hentar einstaklingum og einstæðum foreldrum. Slíkt hlýtur að vera þjóðhagslega hagkvæmt þar sem þessir aðilar eiga þá möguleika á að safna fé til að tryggja sér betri framtíð. Frelsið felst í því að geta valið. 

Að lokum verður að nefna að með því að reikna grunninnkomuna lága, þ.e. við lágmarksframfærsluviðmið er öllum landsbúum tryggður sami réttur til lífs og það án skilyrða og krónuskerðinga. Barátta um lágmarkslaun sem verða umtalsvert hærri en grunninnkoman verður áfram mikilvæg og nauðsynleg til að tryggja atvinnuþátttöku fólks, því flestir vilja jú fá eitthvað meira en lágmarkið til að framfleyta sér.

Heimildir:
– Neysluviðmið velferðarráðuneytis:
https://www.stjornarradid.is/verkefni/felags-og-fjolskyldumal/neysluvidmid/
– Lánasjóður Íslenskra Námsmanna (LÍN)
https://www.lin.is/um-lin/log-og-reglur/uthlutunarreglur-2019-2020
– Umboðsmaður skuldara
https://www.ums.is/is/adstod-vid-greidsluvanda/framfaerslu-reiknivel
– Frétt í Eyjunni á vef DV, 29.10.2019
https://www.dv.is/eyjan/2019/10/29/sjadu-upphaedina-sem-thu-att-ad-geta-lifad-neysluvidmid-rikisins-uppfaerd/
– Vefsíður Íbúðalánasjóðs og Íslandsbanka (skoðað 10.6.2020).

Categories
Skrif um grunninnkomu

Nóbelsverðlauna hugmynd

Hugmyndin um grunninnkomu fyrir alla, er ágætlega studd af ýmsum nóbelsverðlaunahöfum. Þekktastur er líklega Martin Luther King Jr sem fékk friðarverðlaun Nóbels. Martin sagðist vera: “sannfærður um að einfaldasta leiðin muni ná mestum árangri og leiðin til að takast á við fátækt er að útrýma henni alveg, með hinni mikið umræddu aðferð, grunninnkomu.”

Ekki síður þekktur er hagfræðingurinn Milton Friedman sem hefur haft mikil áhrif á þróun markaðshagkerfa Vesturlanda, en hann fékk svo nóbelsverðlaun fyrir hagfræðikenningar sínar. Árið 1967 skrifaði Milton um grunninnkomu:
“Ég mæli með neikvæðum tekjuskatti þar sem það væri mun myndugra en núverandi bótakerfi. Það mun kosta mun minna, veita meiri aðstoð til fátækra, koma í veg fyrir truflun á einstaklingsfrelsi, viðhalda hvata til vinnu og minnka skriffinskuna sem nú er.” 

Til skýringar má nefna að neikvæður tekjuskattur er í raun álíka og persónuafsláttur, sem þó hefur verið gerður útgreiðanlegur og miðast við grunnframfærsluviðmið. Ef öllum eru veitt sú réttindi að geta fengið útgreiddan persónuafslátt þegar innkoma þeirra nær ekki grunnframfærsluviðmiði, rétt eins og Milton Friedman talar um í skrifum sínum, þá er slíkt eitt form af grunninnkomu fyrir alla. Það má kalla gott fyrsta skref til að útrýma fátækt og afnema óskilvirk bótakerfi sem minnka hvata til vinnu.

Neikvæður tekjuskattur
Myndin lýsir neikvæðum tekjuskatti, sem er útgreiðanlegur persónuafsláttur. Á myndinni er miðað við grunnframfærsluviðmið um 250 þúsund á mánuði.

Síðan má nefna að nóbelsverðlaunahagfræðingarnir Dr. Joseph Stiglitz og Dr. Christopher Pissarides hafa báðir nefnt grunninnkomu fyrir alla sem góðan kost til að koma betri grunni undir markaðshagkerfi heimsins. 

Dr. Pissarides sagði árið 2016: “Það munu ekki allir koma vel út úr því að markaðurinn fái að ráða ferð. Þannig að við þurfum að þróa ný kerfi til að útdeila, nýjar stefnur sem munu úthluta frá þeim sem markaðurinn hefði verðlaunað til þeirra sem markaðurinn skilur útundan. Grunninnkoma fyrir alla er ein slík leið, í raun er það hún sem ég held í mestum metum, svo lengi sem við komum henni á án þess að draga úr hvötum til atvinnuþátttöku í lágenda markaðarins.”

Þegar Dr. Stiglitz, var spurður á heimsráðstefnunni 2015 hvort honum litist vel á grunninnkomu fyrir alla. Hann svaraði “Já, það er hluti af lausninni.”  Síðan hélt hann áfram og sagði að grunninnkoman væri ekki allt, og bætti við pælingum svo sem að einnig þurfi að breyta reglum markaðshagkerfisins með því að dreifa fjármagni til fleiri og koma í veg fyrir að spákaupmenn séu skattlagðir í lægra hlutfalli en annað fólk. 

Hagfræðingurinn Friedrich Hayek skrifaði árið 1982: “Fullvissan um tiltekna lágmarksinnkomu fyrir alla eða lágmark sem enginn þarf að fara undir, jafnvel þó að hann geti ekki séð fyrir sér, virðist bæði vera fullkomlega lögmæt vernd gegn áhættu sem er sameiginleg öllum, ásamt því að vera nauðsynlegur hluti samfélags þar sem einstaklingar hafa ekki lengur bein tengsl við þá hópa sem þeir fæddust í”. Þó Hayek sé ekki nóbelsverðlaunahafi þá er hann eitt af stóru nöfnum hagfræðinnar á síðustu áratugum og er þekktastur fyrir frjálshyggjulegar nálganir. 

Samkvæmt ofangreindu eru margir af helstu hugsuðum samtímans og fyrirmyndir annarra bæði í hagfræði og öðrum samfélagsmálum mjög sammála um nauðsyn þess að skoða leiðir til að taka upp grunninnkomu fyrir alla.

Heimildir:

  • “Where We Are Going” eftir Martin Luther King Jr. úr bókinni ‘Where Do We Go From Here: Chaos or Community?’ árið 1967. 
  • „Tekið upp hanskann fyrir neikvæðan tekjuskatt“ eftir Milton Friedman. Birt í: National Review, 7. mars 1967. 
  • Erindi Sir Christopher Pissarides á ‘World Economic Forum’, í Davos 20. janúar 2016.
  • Erindi Dr. Joseph Stiglitz á ‘World Summit on Technological Unemployment’, í New York 29. febrúar 2015. 
  • Friedrich Hayek tilvitnun má m.a. finna í Wikiquote á veraldarvefnum.