Hugmyndin um að allir landsbúar eigi rétt á mánaðarlegri grunninnkomu án frekari afskipta frá ríki og sveitarfélögum er líklega besta mögulega útfærsla á draumum um samspil einstaklingsfrelsis, frjáls markaðar og virks velferðakerfis. Grunninnkoma fyrir alla (GIFA) getur komið í stað flestra bótakerfa þar sem peningatilfærslur fara frá hinu opinbera til einstaklinga. GIFA leysir af hólmi fjölda jöfnunarstyrkja, listamannalauna, beingreiðslna til bænda og tekið við af barnabótum, svo eitthvað sé nefnt. Þá verða lífeyrisgreiðslur valfrjálsar og stéttarfélög þurfa ekki að berjast fyrir grunnviðurværi fólks.
Atvinnurekendur ættu að fagna hugmyndinni um grunninnkomu fyrir alla þar sem launatengd gjöld má lækka verulega. Frumkvöðlar ættu að fagna þar sem hægt verður að stofna sprotafyrirtæki eða aðra starfssemi án þess að hafa áhyggjur af grunninnkomu fyrir sig og fjölskylduna. Fólk sem vill minnka við sig vinnu til að geta sinnt áhugamálum, fjölskyldu, hjálparstarfi, íþróttum, listum, nýsköpun eða vísindum mun geta það. Síðan getur fólk með skerta starfsgetu fengið trygga grunninnkomu til að byggja á.
Um leið einfaldast störf hins opinbera verulega og fjármagn sem áður fór til styrktar tiltekinna atvinnugreina mun fara í að styðja landsbúa til að vinna að þeim atvinnugreinum sem þörf er á hverju sinni. Fólk verður frjálsara, fjármagnið grunninnkomunnar fer í hringrás hagkerfisins, hluti af því kemur aftur til ríkisins í formi virðisaukaskatts. Afskipti og eftirlit með fólki í bótakerfinu sparast og þess í stað geta Alþingi og ríkisráð fylgst betur með og hert aðgerðir gegn peningaþvætti og skattaundanskotum og til að auka gagnsæi með fyrirtækjum og lögaðilum.
Alþingi þarf reyndar að gera nokkrar varúðarráðstafanir til að koma í veg fyrir að stórir markaðsaðilar gleypi ekki ávinning landsbúa af nýja kerfinu, t.d. með breyttum reglum um bankastarfsemi og peningaútgáfu. Best er að greiðslum grunninnkomu sé stýrt af Ríkisskattstjóra milliliðalaust til einstaklinga, þá geta þeir sem vilja afþakka GIFA hakað við þar til gerðan reit á skattskýrslu. Bankar, tryggingafélög, stórfyrirtæki og aðrir aðilar sem starfa í fákeppnisumhverfi eiga ekki að geta dregið úr lífsgæðum sem GIFA veitir fólki.
Einnig þarf að koma á hvötum til að bæta valfrelsi í húsnæðismálum og lækka kostnað landsbúa vegna þaks yfir höfuðið. Svo þarf aðgerðir og hvata til að draga úr fjármagnskostnaði fólks og til að draga úr fákeppni. Mikilvægt er að efla samkeppnisstyrki til einstaklinga, félaga og fyrirtækja til að efla menningu, matvælaframleiðslu, nýsköpun, umhverfisvernd og vísindaiðkun. Allir slíkir styrkir fari í gegnum eina stofnun, t.d. Rannís, úthlutun er þá fyrirsjáanleg, gagnsæ og rekjanleg. Með innleiðingu GIFA munu ríki og sveitarfélög færast yfir í meira þjónustuhlutverk gagnvart samfélaginu.
Launatengd gjöld hafa verið þyrnir í augum margra launagreiðenda, enda geta þessi lögbundnu gjöld verið kostnaður allt að 30% ofan á umsamin laun starfsfólks. Launatengd gjöld eru í raun margir gjaldliðir sem hver og einn reiknast sem hlutfall af umsömdum launum. Stærstu launatengdu gjöldin eru lögbundið framlag launagreiðenda í lífeyrissjóð (11,5%) og reiknað orlof starfsfólks (10,17%-13,04% eftir réttindum). Hlutfall helstu launatengdra gjalda má sjá hér í töflu:
Launatengd gjöld launagreiðenda nú
Hlutfall
Til jöfnunar/lækkunar örorkubyrði lífeyrissjóða
0,325%
Til fæðingarorlofssjóðs til að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf
1,1%
Til lífeyris- og slysatrygginga hjá Tryggingastofnun
3,475%
Atvinnutryggingagjald til Atvinnuleysistryggingasjóðs
1,35%
Ábyrgðasjóður launa greiðslu á kröfum um vangoldin laun og álíka kröfur
0,05%
Markaðsgjald, til rekstrar á Íslandsstofu
0,05%
Lögbundið framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð
11,5%
Framlag í endurhæfingarsjóð
0,1%
Reiknað orlof starfsfólks
10,17%-13,04%
Mótframlag vegna valfrjáls séreignasparnaðar starfsfólks
2%
Launatengd gjöld og grunninnkoma
Í dag standa launatengd gjöld atvinnurekenda að mestu undir félagslega bótakerfinu. Bætur eru skertar og tekjutengdar með þeirri afleiðingu að þær skila sér illa til að efla atvinnulíf í landinu með því að efla frumkvæði og hæfni allra landsbúa til að taka þátt í vinnumarkaði. Sé landsbúum boðið upp á réttindi í stað skilyrtra bóta munu fleiri tekið þátt í að skapa atvinnutækifæri. Grunninnkoma fyrir alla (borgaralaun) er sú hugmynd að allir landsbúar eigi að hafi réttindi á því að fá greidda fasta mánaðarlega grunninnkomu sem tryggir lágmarks lífsviðurværi, að upphæð sem ræðst að lögfestu og vísitölutryggðu grunnframfærsluviðmiði.
Flestir hugsa strax út frá gildandi hagkerfi og segja að grunninnkoma fyrir alla sé of dýr. Svarið er nei, því um leið og grunninnkoma verður að réttindum aukast tekjur ríkissjóðs bæði í formi tekjuskatts einstaklinga og virðisaukaskatts, sem eru tveir stærstu tekjuliðir hins opinbera. Einnig þarf margt að breytast í hagkerfinu* og á vinnumarkaði til að nýju réttindin bæti hagkerfið. Um leið og ráðist verður í að afnema krónuskerðingar bóta og hækkunar persónuafsláttar upp í lágmarks framfærsluviðmið, þarf aðgerðir til að lækka verðlag húsnæðis og matvæla. En augljóslega aukast tækifæri bæði lágtekjufólks og skapandi fólks til að bæta við eigin tekjur og auka um leið tekjur ríkissjóðs.
Lækkun launatengdra gjalda
Með tilkomu grunninnkomu fyrir alla verður mögulegt að leggja mörg launatengd gjöld af og gera önnur valfrjáls fyrir starfsfólk. Það má leggja avinnuleysisbætur niður í skrefum jafnframt því að afnema með öllu kröfu um krónu á móti krónuskerðingar sem tíðkast hafa í atvinnubótakerfinu. Eftirlitskerfi Vinnumálastofnunar með innkomu fólks má leggja af því eina eftirlitshlutverkið sem þörf er á hjá Ríkisskattstjóra þar sem fylgst verður með því að bæði launagreiðendur og launþegar greiði gjöld og skatta í samræmi við lög. Þannig geta launagreiðendur sleppt að greiða atvinnutryggingagjaldið 1,35%.
Það má aftengja lögbundnar greiðslur í lífeyrissjóði því grunninnkoma mun sjá til þess að allir landsbúar verða með grunnviðurværi tryggt æfilangt. Lífeyrissjóðsgreiðslur geta þá orðið valfrjálsar fyrir hvern og einn landsbúa, án framlags fyrirtækja. Sama á við um séreignasparnað, þar sem launagreiðendum er gert að greiða 2% sem mótframlag ef starfsfólk velur að leggja 2% eða meira af launum sínum í séreignasparnað.
Annar stór liður í launatengdum gjöldum eru orlofsgreiðslur sem reiknast 10,7% af nettó umsömdum launum fyrir 24 daga orlof. Það er vel hægt að hugsa sér að leggja megi lögbundnar orlofsgreiðslur niður þegar allir landsbúar hafa rétt á grunninnkomu þegar þeir fá samþykkt frí frá vinnu. Einnig má ímynda sér að starfsfólk eða stéttarfélög geti samið við launagreiðendur um að greiða í orlofssjóði, t.d. Í ráðningasamningi, án þess að ríkið sé með lagasetningu þar um.
Í stað þess að allir launagreiðendur séu að greiða í ábyrgðasjóð launa 0,05% þaðan sem sækja má greiðslu á kröfum um vangoldin laun, bætur vegna slita á ráðningarsamningi, ógreitt orlof, bætur vegna vinnuslysa og álíka, má alveg hugsa sér markaðslausn þar sem launagreiðendur greiði tryggingagjald sem samsvarar 3-6 mánaða launum á lokaðan reikning fyrir hvern starfskraft, en geta fengið féð til baka við starfslok ef launagreiðandinn hefur staðið skil á öllum greiðslum.
Launatengd gjöld framtíðar
Þegar búið er að afnema gjöld sem nefnd eru hér að ofan, ásamt greiðslum launagreiðenda til reksturs ríkisstofnunarinnar Íslandsstofu, sem varla þarf að orðlengja hversu fáránlegt er. Standa eftir launatengd gjöld sem eru ríflega rúmlega helmingi lægri en nú er, eða um 10-12% ofan á hverja launagreiðslu. Gjöldin sem eftir standa má kalla samfélagslega ábyrgð launagreiðenda til að tryggja mannauð í samfélaginu.
Hugmyndir um launatengd gjöld framtíðar
Hlutfall
“Almannatryggingagjald” til meðferðarúrræða og slysatrygginga
3-4%
“Barnabótatryggingagjald” til að greiða fyrir úrræðum fyrir ólögráða einstaklinga
3-4%
“Örorkutryggingargjald” til úrræða fyrir fólks með skerta vinnugetu
4-5%
…eða…
Önnur hugmynd gæti verið: “Samfélagsgjald”
ca. 11%
Í stað núverandi framlags launagreiðenda til atvinnuleysis, lífeyris- og slysatrygginga, í endurhæfingasjóði, í fæðingarorlofssjóði og örorkusjóði geta komið einn, tveir eða þrír gjaldliðir þar sem launagreiðendum er gert að axla samfélagslega ábyrgð með því að greiða fyrir vinnutengd meðferðarúrræði, slysatryggingar og álíka, einnig fyrir úrræði fyrir ólögráða einstaklinga til eflingar atvinnuþátttöku og jafnvel örorkutrygginagjald sem færi til fólks með skerta vinnugetu, þar eru ótal hugmyndir og þarfir til atvinnuskapandi úrræða. Markmið “samfélagsábyrgðargjalds” væri að fyrirtæki stuðli að eflingu vinnumarkaðar á Íslandi.
Þegar allir landsbúar eiga rétt á grunninnkomu er ljóst að launatengd gjöld atvinnurekenda geta lækkað úr 20%-30% niður í 10%-12% af launakostnaði. Það ætti nú að gleðja marga launagreiðendur og hvetja til að skoða nýja kosti í samskiptum við ríki og starfsfólk. Samfélagi þar sem meginhlutverk ríkisins er að tryggja frelsi og réttindi með grunninnkomu fyrir alla og tækla í leiðinni atvinnuleysi, fátækt og réttindi þeirra sem hafa skerta vinnugetu eða kjósa að vinna á öðrum vettvangi, eins og fjölskyldu- og heimilisstörf, sjálboðastörf, skapandi störf svo sem listsköpun eða rannsóknarstörf eða ná árangri í íþróttum, svo nokkur dæmi séu nefnd.
* Lesa má enn fleiri hugmyndir um hagræðingar og úrbætur í skattkerfinu í nýlegum skýrslum: – Úttekt á íslensku skattkerfi, 2016 https://www.stjornarradid.is/media/forsaetisraduneyti-media/media/Skyrslur/uttekt-a-skattkefinu.pdf – Sanngjörn dreifing skattbyrðar, 2019 https://efling.is/wp-content/uploads/2019/02/Sanngjo%CC%88rn-dreIfing-skattbyr%C3%B0ar-lokaproof_A.pdf – Eða samanburð á nokkrum efnistökum þessara skýrslna Samanburður á tillögum til úrbóta í skattamálum.