Categories
Skrif um grunninnkomu

Leiðin fram á við

Royalty-Free photo: Person holding light bulb | PickPik

Hugmyndin um að allir landsbúar eigi rétt á mánaðarlegri grunninnkomu án frekari afskipta frá ríki og sveitarfélögum er líklega besta mögulega útfærsla á draumum um samspil einstaklingsfrelsis, frjáls markaðar og virks velferðakerfis. Grunninnkoma fyrir alla (GIFA) getur komið í stað flestra bótakerfa þar sem peningatilfærslur fara frá hinu opinbera til einstaklinga. GIFA leysir af hólmi fjölda jöfnunarstyrkja, listamannalauna, beingreiðslna til bænda og tekið við af barnabótum, svo eitthvað sé nefnt. Þá verða lífeyrisgreiðslur valfrjálsar og stéttarfélög þurfa ekki að berjast fyrir grunnviðurværi fólks. 

Atvinnurekendur ættu að fagna hugmyndinni um grunninnkomu fyrir alla þar sem launatengd gjöld má lækka verulega. Frumkvöðlar ættu að fagna þar sem hægt verður að stofna sprotafyrirtæki eða aðra starfssemi án þess að hafa áhyggjur af grunninnkomu fyrir sig og fjölskylduna. Fólk sem vill minnka við sig vinnu til að geta sinnt áhugamálum, fjölskyldu, hjálparstarfi, íþróttum, listum, nýsköpun eða vísindum mun geta það. Síðan getur fólk með skerta starfsgetu fengið trygga grunninnkomu til að byggja á. 

Um leið einfaldast störf hins opinbera verulega og fjármagn sem áður fór til styrktar tiltekinna atvinnugreina mun fara í að styðja landsbúa til að vinna að þeim atvinnugreinum sem þörf er á hverju sinni. Fólk verður frjálsara, fjármagnið grunninnkomunnar fer í hringrás hagkerfisins, hluti af því kemur aftur til ríkisins í formi virðisaukaskatts. Afskipti og eftirlit með fólki í bótakerfinu sparast og þess í stað geta Alþingi og ríkisráð fylgst betur með og hert aðgerðir gegn peningaþvætti og skattaundanskotum og til að auka gagnsæi með fyrirtækjum og lögaðilum.

Alþingi þarf reyndar að gera nokkrar varúðarráðstafanir til að koma í veg fyrir að stórir markaðsaðilar gleypi ekki ávinning landsbúa af nýja kerfinu, t.d. með breyttum reglum um bankastarfsemi og peningaútgáfu. Best er að greiðslum grunninnkomu sé stýrt af Ríkisskattstjóra milliliðalaust til einstaklinga, þá geta þeir sem vilja afþakka GIFA hakað við þar til gerðan reit á skattskýrslu. Bankar, tryggingafélög, stórfyrirtæki og aðrir aðilar sem starfa í fákeppnisumhverfi eiga ekki að geta dregið úr lífsgæðum sem GIFA veitir fólki. 

Einnig þarf að koma á hvötum til að bæta valfrelsi í húsnæðismálum og lækka kostnað landsbúa vegna þaks yfir höfuðið. Svo þarf aðgerðir og hvata til að draga úr fjármagnskostnaði fólks og til að draga úr fákeppni. Mikilvægt er að efla samkeppnisstyrki til einstaklinga, félaga og fyrirtækja til að efla menningu, matvælaframleiðslu, nýsköpun, umhverfisvernd og vísindaiðkun. Allir slíkir styrkir fari í gegnum eina stofnun, t.d. Rannís, úthlutun er þá fyrirsjáanleg, gagnsæ og rekjanleg.  Með innleiðingu GIFA munu ríki og sveitarfélög færast yfir í meira þjónustuhlutverk gagnvart samfélaginu.