Categories
Óflokkað

“Kallar sig Bófaflokk nema öll gengur sú stigamennska út á að hafa kaupið af fátækum listamönnum”

Breskir sjóliðar og sjóræningar frá Barbaríinu berjast á þilfari skips.
Mynd í almenningseign (PD)

Hér á eftir fer bloggpistill sem ég skrifaði árið 2013 um höfundarrétt og meint höfundarréttarbrot. Hvernig tengist það borgaralaunum? Eru tæknibreytingar sem gera auðvelt að hlaða niður bókum og samfélag sem telur að slíkt ætti að stuðla að meira niðurhali og dreifingu bóka verkfæri djöfulsins til þess gerð að hafa kaupið af fátækum listamönnum? Hvernig á þjóðfélag að bregðast við þegar tekjumöguleikar stórra starfsstétta eins og tónlistarmanna og rithöfunda minnka af völdum tækninnar?

Er rétta leiðin að búa til sem mesta lása og girðingar svo fólk geti alls ekki notað tæknina til auðvelda sér aðgengi að efni. Eða er leiðin sú að fara í annars konar samfélag, samfélag þar sem höfundar efnis gefa vinnu sína til þeirra sem vilja njóta og nota, gefa út efni með opnum höfundarleyfi. En hvernig getur slíkt virkað? Höfundar efnis þurfa líka að borða og eiga föt og húsaskjól. Er ekki upplagt að hugsa þetta sem borgaralaun en ekki listamannalaun? Hvers vegna eigum við að halda uppi samfélagi þar sem fáir útvaldir framleiða efni sögur og fræðiefni?

Hér á eftir fer bloggpistill minn frá 12. ágúst 2013:

Guðmundur Andri Thorsson skrifar í Fréttablaðið í dag greinina steldu.net þar sem hann fjallar niðurhal og ræðst harkalega á Pírata og gerir okkur upp meiningar en hann segir í greininni:

Heill stjórnmálaflokkur hefur verið stofnaður utan um þessi mikilsverðu réttindi þess sem situr með hendur í skauti heima í stofu og bíður eftir því að vera skemmt, og kennir sig af stolti við iðju sjóránsmanna fyrri alda og talar í nafni framtíðarinnar. Kallar sig Bófaflokk nema öll gengur sú stigamennska út á að hafa kaupið af fátækum listamönnum.”

Ég fullyrði að það er ekki til að stunda stigamennsku til að grafa undan lífsviðurværi fátækra listamanna að fólk gengur til liðs við Pírata og Píratahreyfing hefur sprottið upp víða um lönd og orðið stjórnmálaafl. Það eru margar ástæður fyrir því að fólk er Píratar en hjá flestum sem hafa fylgst með samfélagsþróun síðustu ára og lifað og hrærst í netheimum og starfað þar er þetta stjórnmálaafl beinlínis orðið til af brýnni þörf, þörf fyrir að sporna við því að samfélag netheima verði að fjötrum og kúgunartæki valdhafa og beygt undir samfélagsgerð sem setur neyslu í forgang og viðurkennir ekki samskipti nema einn sé að selja og annar að kaupa og innsiglar samskipti með peningum.

Þannig samfélag, markaðshyggjusamfélag þess tíma sem við lifum á virkar ágætlega við ákveðnar aðstæður og átti sitt blómaskeið á tímum fjöldaframleiðslu þar sem endalaus eftirspurn var eftir hlutum. En þannig samfélag býr til og viðheldur misskiptingu þannig að sá sem á mikið getur líka keypt mikið og keypt sér aðgang að þekkingu og aðföngum sem efla hann til að verða ennþá ríkari á meðan sá sem á ekkert til að greiða með er útilokaður. Það er af þessari ástæðu að ég sem kennari fylki mér í hóp þeirra sem vilja að sem mest af upplýsingum og þekkingu heimsins þ.e. því sem getur orðið efniviður til bjargálna sé frjáls og ókeypis og öllum aðgengileg við aðstæður sem fólk getur nýtt sér.

Ef bækur eru dýrar og mikið umstang þarf að afla þeirra verður það efni sem er í bókum aðeins aðgengilegt litlum forréttindahópi í samfélaginu. Þannig var um bækur fyrir tíma prentlistar, þá voru þær handrit í eigu höfðingja og ríkra klaustra og það var ekki almenningur sem hafði aðgang að þeirri þekkingu sem þar var. Með prentinu breyttist það, þekking gat breiðst miklu hraðar út og fleiri höfðu aðgengi að þekkingu. Það hafa í þúsundir ára verið til bókasöfn, þekkingarsöfn þar sem fólk gat lesið bækur. En í mörgum samfélögum var og er aðgengi að bókasöfnum forréttindi ákveðinna hópa, forréttindi sem tryggja valdastöðu þeirra og möguleika til að hafa áhrif og ekkert er eins áhrifaríkt til að viðhalda valdaleysi hinna að þeir hafi ekkert aðgengi að þekkingu og upplýsingum. Af hverju ættum við að viðhalda samfélagi sem setur manngerðar hindranir á aðgengi að þekkingu og upplýsingum að því er virðist fyrst og fremst til að auka forskot þeirra sem hafa á þá sem hafa ekki?

Það er engin tilviljun að sá maður sem varð hetja sjálfstæðisbaráttunnar á Íslandi Jón Sigurðsson hafði afar góðan aðgang að bókasöfnum og ýmis konar þekkingu um landshagi, aðgang sem hann fékk fyrst sem kornungur maður sem biskupsritari í Reykjavík hjá þeim manni sem átti hvað best bókasafn á Íslandi.

Veltum fyrir okkur hvort að Jón hefði getað beitt sér á sama hátt í sjálfstæðisbaráttunni ef hann hefði aldrei farið suður og aldrei siglt til Kaupmannahafnar heldur setið alla tíð heima á Hrafnseyri og orðið að moða eingöngu úr þeirri þekkingu sem barst til heimabyggðar hans þá. Á þeim tíma var það reyndar hlutskipti næstum allra kvenna að sitja heima og hafa enga möguleika til að afla sér menntunar annarrar en þeirrar sem barst á heimaslóðir. Það voru höfðingjasynir, synir presta og embættismanna sem sigldu utan til náms og frama.

Nú lifum við á tímum þar sem vel er hægt að afla sér þekkingar án þess að sitja nokkurn tíma undir lindinni á stúdentagarði í Kaupmannahöfn. Af hverju ættum við í dag að búa til og viðhalda sams konar höfðingjaveldi og fyrir hundruðum ára með því að takmarka aðgengi hinna fátækari og vegalausari til þekkingar og upplýsinga?

Það eykur möguleika okkar á að bjarga okkur að hafa sem best aðgengi að þekkingu og upplýsingum. Að sama skapi er það hættulegt ef yfirvöld eða valdamiklir aðilar fá of mikil réttindi til að ráðskast með netaðgengi okkar og vakta hvert okkar spor og andspyrna gegn slíku er ekki síst það sem dregur fólk að Pírötum. Það er knýjandi að vekja athygli á og umræðu um hve hættulegt er að herveldi grá fyrir járnum breytist í lögregluríki á Internetinu og ofsæki almenning og stýri umhverfi þar og umræðu sér í hag til að banna og veikja alla andspyrnu og alla gagnrýni.

Nettæknin er öflug og það eru nógu hræðilegar sögur frá tímum heimstyrjaldar og kaldastríðs og ýmissa einræðisríkja sem færa okkur rök fyrir því hvers vegna við eigum að spyrna fast við öllum tilburðum valdhafa sem líta á þegna sína sem mögulega hryðjuverkamenn og þeirra sem ganga erinda stórra auðhringja sem vilja læsa okkur inn í neyslumynstri sem gerir þá ríka og okkur andlausa, fákæna og fátæka. Það er knýjandi eins og uppljóstranir Snowdens og Wikileaks hafa sýnt.

En það er líka knýjandi að við áttum okkur á því að öll framleiðsla og efnisgerð og þar með talin skapandi skrif og listvinnsla ýmis konar er að breytast, breytast úr því að vera höfundarverk einstaklinga eða vara framleidd af fyrirtæki í að verða síkvik endurgerð þar sem sköpun getur allt eins verið að setja saman hluti frá öðrum og mörkin eru að hverfa – mörkin milli neytanda og framleiðanda og mörkin milli lesanda og rithöfundar sem og ýmsar aðrar markalínur. Kerfi sem passaði vel við prentsamfélag og fjöldaframleiðslusamfélag með skýr mörk er ekkert að virka núna. Peningakerfi nútímans er t.d. að virka ákaflega illa.

Við lifum núna á mótum tveggja skeiða, annars vegar skeiðs fjöldaframleiðslu og skýrt afmarkaðra stofnana og hins vegar á tímum það sem framleiðsla er að breytast, breytast m.a. á þann hátt að vara, hlutir, þjónusta, afþreying og list er sköpuð á sama vettvangi og hún er notuð, sköpuð að miklu leyti á notkunarstað og af notanda. Við erum ekki lengur á tímum þar sem eru lesendur og hlustendur með skýrt afmörkuð hlutverk sem hvergi skarast, við erum á leið inn í tíma gerenda, inn í gerendamenningu. Einn liður í því er að sagnagerð og það sem áður var bókmenntir er að breytast í einhvers konar ævintýraleiki sem geta haft margar endingar og margraddaða og samflækta kóra í síbylju Netsins. Og margir verða höfundar að einu verki, ekki bara einn fátækur listamaður.

Við lifum á tímum remixsins, endursköpunar úr annarra verkum og sú endurblöndunarlist spratt upp úr tónlist en mun og hefur teygt sig í aðrar greinar og líka yfir í framleiðslu og þá fyrst í stafræna framleiðslu. Við höfum séð hreyfingar spretta upp í Netheimum sem taka mið af þessum veruleika og skora staðnað kerfi eignavarinna réttinda á þekkingu og forskriftum á hólm. Hér má nefna samfélög um opinn hugbúnað og samfélög um opna þekkingu (t.d. Wikipedia).

Hér á eftir fer bein tilvitnun (skáletruð) í grein Guðmundar Andra (vona að mér sé heimild að birta þetta hérna, ég hef það milli gæsalappa og inndregið og skáletrað og vona að ég sé ekki að fremja höfundarréttarbrot á að vitna í orð hans þar sem ég þarf þess í minni umfjöllun um hans pistil):

Þannig má velta fyrir sér röksemdum þeirra sem aðhyllast frjálst niðurhal á kvikmyndum, tónlist og bókum. Í fyrsta lagi, segja þau, er vonlaust að koma í veg fyrir meirihlutann af þessu. Í öðru lagi er það forneskja að neytandinn geti ekki sjálfur náð sér í þann varning sem hann hefur áhuga á undir eins og honum þóknast. Og í þriðja lagi er höfundarrétturinn úreltur.

Þetta eru falsrök. Það að erfitt sé að koma alls staðar með lögregluaðgerðum í veg fyrir einhverja mannlega iðju getur aldrei táknað að samfélagið eigi þar með að fallast á hana. Boð og bönn samfélagsins snúast ekki fyrst og fremst um glæpi og refsingu heldur öllu fremur um sjálfsmynd samfélagsins og sjálfsmynd þeirra einstaklinga sem það mynda – rétt og rangt – almennt siðferði. Er ég manneskja sem getur lifað með því að taka réttmæta eign annarra? Erum við samfélag sem getur lifað með því að líða ránskap?

Það að tæknilega sé mögulegt að gera eitthvað gerir það ekki sjálfkrafa æskilegt. Það að mig langi í eitthvað táknar ekki sjálfkrafa að mér beri að fá það fyrirhafnarlaust.

Neytandinn über alles

Þegar ég sæki mér bíómynd á síðuna deildu.net, sem af stolti auglýsir að hún bjóði nú upp á íslenskt efni, þá er ég ekki bara að taka það ófrjálsri hendi sem mér ber að borga fyrir heldur er ég líka að lýsa því yfir að það fólk sem haft hefur fyrir því að skapa þetta listaverk eigi ekki að fá greitt fyrir vinnu sína. Ég er með þessum gjörningi að lýsa því yfir að matráðsfólkið við gerð myndarinnar eigi ekki að fá greitt fyrir matargerðina, ekki bílstjórarnir sem vinna við gerð myndarinnar, ekki kvikmyndatökufólkið, ekki smiðirnir sem gera leikmyndina, ekki klipparinn, ekki leikstjórinn, ekki leikararnir, ekki þau sem finna tökustaðina, ekki handritshöfundurinn – enginn. Þau hafa – segi ég með þessum gjörningi – engan rétt á launum fyrir vinnu sína: ég hef allan réttinn mín megin vegna þess að ég er nefnilega neytandi.

Hið sama gildir um bókagerð og öll afleiddu störfin sem hljótast af iðju skáldsins og hið sama gildir um tónlistina: réttur neytandans til að njóta listarinnar er samkvæmt þessum þankagangi æðri rétti listamannsins til að fá greitt fyrir vinnu sína. Heill stjórnmálaflokkur hefur verið stofnaður utan um þessi mikilsverðu réttindi þess sem situr með hendur í skauti heima í stofu og bíður eftir því að vera skemmt, og kennir sig af stolti við iðju sjóránsmanna fyrri alda og talar í nafni framtíðarinnar. Kallar sig Bófaflokk nema öll gengur sú stigamennska út á að hafa kaupið af fátækum listamönnum.”

Guðmundur Andri sér hlutskipti sitt og annarra listamanna sem fátækir puðarar sem eru ofurseldir því að selja vöru sína á markaði, selja til þeirra sem eru núna að niðurhala efni ókeypis og það sé tap listamannanna. Það má líka lesa milli lína í pistli Guðmundar Andra þá sýn að listamaður sé eini skapandi sinna höfundarmerktu verka og þess vegna eigi hann einn höfundarrétt á þeim.

Ekkert gæti verið meira fjarri sanni. Það er einungis lítill hluti af verði listverks sem rennur til listamanns í venjulegu markaðskerfi, mestur hlutinn fer í alls konar milliliði og söluaðila. Opinberir aðilar á Íslandi styðja við listsköpun á ýmsan hátt og greiða m.a. völdum listamönnum laun. Ef listsköpun þeirra er þess eðlis að hún er elítulist sem aðeins fáir útvaldir fái notið vegna þess að hún kostar svo mikið, hvers vegna er þá verið að niðurgreiða slíka list af fé almennings? Væri ekki skynsamlegra að fella niður listamannalaun í núverandi mynd og borga í staðinn listamönnum fyrir að gefa verk sín út með opnum höfundarleyfum (CC leyfum) þannig að verkin séu öllum aðgengileg?

Og hversu mikið á listamaður sína sögu, spratt hún fram úr einrúmi án tengsla við allar þær raddir sem ómuðu meðal almennings? Nei. Margir listamenn hafa nýtt sér og drukkið í sig örlagasögu raunverulegs fólks og fært það í búning í skáldsögum sínum. Þannig saug Halldór Laxness í sig ævisögu skáldsins á Þröm og færði í glitbúning Ljósvíkingsins og núna nýverið var einmitt umræða sem mig minnir að Helga Kress hafi staðið fyrir þar sem nokkrar nýlegar skáldsögur voru krufðar og farið í hvernig höfundar svelgdu í sig líf raunverulegs fólks án samþykkis.

Vigdís Grímsdóttir lýsir svoleiðis sköpun snilldarlega í skáldsögu sinni Stúlkan í skóginum, í kossinum þar sem brúðugerðarkona sýgur lífsorku út úr stúlkunni til að glæða brúður sínar lífi. Og hve margir listamenn fyrr og síðar hafa ekki verið í stöðu listasmiðsins Völundar sem var í haldi konungs að vinna að smíðum sínum og var örkumlaður og fjötraður af þeim sem hann vann fyrir til að hann færi ekkert.

Það hafa margir bent á að listamenn fá flestir afar litla umbun fyrir verk sín og bækur seljast ekkert nema fyrstu tvö árin eftir að þær koma út. Það er enginn að græða á því að frysta verk og þekkingu og sögur og list inn í frystigeymslum hefðbundins höfundarréttar. Það hafa sprottið upp öðruvísi kerfi, kerfi þar sem höfundarrétthafar gefa efni sitt út með opnum höfundarrleyfum og eins og staðan er núna þá stefnir allt í það að við sem viljum fara að lögum höfum ekkert val nema að sniðganga algjörlega efni með hefðbundnum höfundarrétti. Þetta getum við von bráðar vegna þess að það verður sífellt til meira af efni með opnum leyfum.

En þetta þýðir að við höfum ekkert aðgengi að stórum hluta nútímamenningar, Við erum svipt aðgengi að okkar eigin menningu, við megum ekki tala um hana, við megum ekki enduróma hana eða nota í okkar eigin verk og okkar samræðu. Sá tími mun koma að það mun renna upp fyrir fólki hversu miklir fjötrar og óréttlæti og mannréttindabrot þetta eru.

Ég nefndi sem dæmi að ég má ekki birta mynd af Hallgrímskirkju eða Skálholtskirkju á Wikipedia vegna þess að þessar byggingar eru höfundarrréttarvarin hugverk arkitekta og sá höfundarréttur rennur ekki út fyrr en 70 árum eftir dauða höfundar. En málið er þannig núna að menning sem ekki lagar sig að nýjum tíma, að nýjum veruleika og nýrri miðlun og heldur í svona reglur er menning sem er að deyja og hún deyr kannski út á skemmri tíma en 70 árum.