Categories
Skrif um grunninnkomu

Draga gjafapeningar úr atvinnuþátttöku?

Alla daga ársins afhendir íslenska ríkið þúsundum einstaklinga peninga beint inn á bankareikning. Þetta er kallað ýmsum nöfnum, bætur fyrir atvinnumissi, ellilífeyrir, lífeyrir vegna örorku, styrkir til istafólks, tekjutilfærslur eins og barnabætur og vaxtabætur eða beingreiðslur til bænda. Bætur eru almennt háðar skilyrðum um aðra innkomu á meðan beingreiðslur, styrkir og margar tekjutilfærslur eru afhentar án skilyrða um aðra innkomu.

Af einhverjum ástæðum hafa margir atvinnurekendur, fræðingar, stjórnmálamenn og aðrir haldið því fram að bótaþegar og þyggjendur beingreiðslna eyði fjármagninu í tómstundir eða vitleysu, missi áhugann á að vinna og valdi jafnvel skorti á vinnuafli ef of margir fá pening frá ríkinu. Þannig hafa bótaþegar oft verið álitnir letingjar, byrði á samfélaginu eða eitthvað álíka. Því þykir sumum sjálfsagt að skerða tekjutilfærslur ríkis tileinstaklinga.  

Árið 2017 gerðu fjórir bandarískir hagfræðingar ítarlega rannsókn á því hvort beinar fjármagnstilfærslur frá ríki til einstaklinga fengju fólk til að hætta að vinna. Þeir skoðuðu ýmsar tekjutilfærslur til fátækra víða um heim og völdu nokkrar slíkar til að skoða nánar, þar sem verkefnin uppfylltu skilyrði um að; 1) fjármagni var veitt frá ríkinu til einstaklinga, en samt ekki félagsleg bótakerfi, 2) mögulegt var að skoða ítarleg og nákvæm gögn um tekjutilfærslurnar og þátttakendur, og 3) þar sem verulegur fjöldi einstaklinga voru þátttakendur og viðmiðunarhópar skilgreindir. 

Matvælamarkaður

Tekjutilfærsluverkefnin sem þeir skoðuðu fyrst komu frá fjölda ríkja í Suður Ameríku, Evrópu, Asíu og Afríku. Eftir að hafa ákvarðað hvaða kerfi uppfylltu skilyrðin rannsökuðu hagfræðingarnir nánar beingreiðsluverkefni í Honduras, Indónesíu, Mexíkó, Marokkó, Nígaragúa og Filipseyjum frá árunum 1998 til 2012. Við yfirferð á gögnum úr þessum verkefnum fundu þeir meðal annars upplýsingar um atvinnuþátttöku og vinnustundir, bæði þeirra sem þáðu fjármagn og viðmiðunarhópa á sama svæði. 

Með því að rannsaka ítarlega gögn um þyggjendur tekjutilfærslna gátu hagfræðingarnir skoðað nokkuð nákvæmlega hvernig þróunin varð í atvinnuþátttöku fólksins. Samtals ná öll verkefnin til um 45 þúsund heimila og upphæðirnar voru frá 4$ upp í 30$ á mánuði eftir fjölda barna og fjölsyldugerð. Um 56% af þátttakendum höfðu atvinnu áður en beingreiðsluverkefnin hófust og þá var algengara að karlmenn væru vinnandi. 

Niðurstaða hagfræðingana fjögurra var byggð á hagrænum útreikningum á gögnum var sú að atvinnuþátttaka breyttist ekki þegar fólkið fékk beinar tekjutilfærslur frá ríkinu. Fólkið varð ekki latara og hætti ekki að vinna, einhverjar mæður völdu þó að vinna minna úti og sinna börnunum meira á meðan margir karlmenn nýttu fjármagnið til að fjárfesta í atvinnutækifærum. Þetta er álíka niðurstaða og fékkst í tilraun í Finnlandi með tekjutilfærslum til atvinnulausra á árunum 2016-2018. 

Þessar niðurstöður nokkuð fyrirsjáanlegar fyrir okkur íslendinga sem þekkjum hvernig beingreiðslur til bænda hafa um árabil skapað vinnustétt sem nýtir fjármagnið til að fjárfesta í búum, fjölskyldum og framtíðinni. Sama má segja um listamannalaun, þar sem listafólk nýtir fjárstyrki ríkisins til að skapa verðmæti sem mörg eru ómetanleg fyrir samfélagið, leikrit, ljóð, myndlist, skáldsögur og tónverk. Álíka má segja um þá sem þyggja hina ýmsu styrki frá Rannís, Nýsköpunarmiðstöð, Byggðastofnun, o.fl. 

Þeir hópar sem ljóst er að vinna minna við að þyggja beingreiðslur frá ríkinu eru atvinnulausir, ellilífeyrisþegar og öryrkjar, hópar sem þurfa að búa við krónuskerðingar á bótum ef þeir fá aðra innkomu. “Sá galli fylgir þessari aðferð að fólk sem minnstar tekjur hefur á erfitt með að rífa sig upp úr fátæktinni. Þó að meira sé lagt í lífeyrissjóð eða unnið meira aukast ráðstöfunartekjur lítið eða ekki.” (úr skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ.)

Eina vitið er auðvitað að afnema krónuskerðingar á bótum, að ríkið hætti afskiptum af fólki og innkomu þess (öðrum en skattinnheimtu) og að jafnvel stefna að því að sameina allar beingreiðslur, bótakerfi og styrki undir hatti skilyrðislausrar grunnframfærslu fyrir alla. Fyrst í stað er skoðandi að koma á neikvæðum tekjuskatti sem miðast við grunnframfærsluviðmið og enn síðar má skoða að taka upp borgaralaun, þ.e. tekjutilfærslur sem allir landsbúar hafa rétt á óháð innkomu. 

Í það minnsta hefur það verið sannreynt að tekjutilfærslur frá ríki til fólks draga ekki úr vilja þess til að vinna. 

Heimildir: 

Banerjee, Hanna, Kreindler & Olken. Debunking the Stereotype of the Lazy Welfare Recipient: Evidence from Cash Transfer Programs. World Bank Research Observer, 2017. https://academic.oup.com/wbro/article/32/2/155/4098285

Útgjöld til félagsverndar til 2013 á vef Hagstofu Íslands. https://hagstofa.is/talnaefni/samfelag/felagsmal/utgjold-til-felagsverndar/

Útgjöld til félagsverndar til 2017 á vef Eurostat.
https://ec.europa.eu/eurostat/web/social-protection/data/database

Sveinn Agnarsson og Sigurður Jóhannesson. Framleiðnimæling og ávinningur af aukinni atvinnuþátttöku eldri borgara og öryrkja. Hagfræðistofnun HÍ og Rannsóknasetur verslunarinnar, 2007. https://www.vr.is/media/2049/framleidni_atvinnuthatttaka_eldri_borgara_2007.pdf