Categories
Skrif um grunninnkomu

Nóbelsverðlauna hugmynd

Hugmyndin um grunninnkomu fyrir alla, er ágætlega studd af ýmsum nóbelsverðlaunahöfum. Þekktastur er líklega Martin Luther King Jr sem fékk friðarverðlaun Nóbels. Martin sagðist vera: “sannfærður um að einfaldasta leiðin muni ná mestum árangri og leiðin til að takast á við fátækt er að útrýma henni alveg, með hinni mikið umræddu aðferð, grunninnkomu.”

Ekki síður þekktur er hagfræðingurinn Milton Friedman sem hefur haft mikil áhrif á þróun markaðshagkerfa Vesturlanda, en hann fékk svo nóbelsverðlaun fyrir hagfræðikenningar sínar. Árið 1967 skrifaði Milton um grunninnkomu:
“Ég mæli með neikvæðum tekjuskatti þar sem það væri mun myndugra en núverandi bótakerfi. Það mun kosta mun minna, veita meiri aðstoð til fátækra, koma í veg fyrir truflun á einstaklingsfrelsi, viðhalda hvata til vinnu og minnka skriffinskuna sem nú er.” 

Til skýringar má nefna að neikvæður tekjuskattur er í raun álíka og persónuafsláttur, sem þó hefur verið gerður útgreiðanlegur og miðast við grunnframfærsluviðmið. Ef öllum eru veitt sú réttindi að geta fengið útgreiddan persónuafslátt þegar innkoma þeirra nær ekki grunnframfærsluviðmiði, rétt eins og Milton Friedman talar um í skrifum sínum, þá er slíkt eitt form af grunninnkomu fyrir alla. Það má kalla gott fyrsta skref til að útrýma fátækt og afnema óskilvirk bótakerfi sem minnka hvata til vinnu.

Neikvæður tekjuskattur
Myndin lýsir neikvæðum tekjuskatti, sem er útgreiðanlegur persónuafsláttur. Á myndinni er miðað við grunnframfærsluviðmið um 250 þúsund á mánuði.

Síðan má nefna að nóbelsverðlaunahagfræðingarnir Dr. Joseph Stiglitz og Dr. Christopher Pissarides hafa báðir nefnt grunninnkomu fyrir alla sem góðan kost til að koma betri grunni undir markaðshagkerfi heimsins. 

Dr. Pissarides sagði árið 2016: “Það munu ekki allir koma vel út úr því að markaðurinn fái að ráða ferð. Þannig að við þurfum að þróa ný kerfi til að útdeila, nýjar stefnur sem munu úthluta frá þeim sem markaðurinn hefði verðlaunað til þeirra sem markaðurinn skilur útundan. Grunninnkoma fyrir alla er ein slík leið, í raun er það hún sem ég held í mestum metum, svo lengi sem við komum henni á án þess að draga úr hvötum til atvinnuþátttöku í lágenda markaðarins.”

Þegar Dr. Stiglitz, var spurður á heimsráðstefnunni 2015 hvort honum litist vel á grunninnkomu fyrir alla. Hann svaraði “Já, það er hluti af lausninni.”  Síðan hélt hann áfram og sagði að grunninnkoman væri ekki allt, og bætti við pælingum svo sem að einnig þurfi að breyta reglum markaðshagkerfisins með því að dreifa fjármagni til fleiri og koma í veg fyrir að spákaupmenn séu skattlagðir í lægra hlutfalli en annað fólk. 

Hagfræðingurinn Friedrich Hayek skrifaði árið 1982: “Fullvissan um tiltekna lágmarksinnkomu fyrir alla eða lágmark sem enginn þarf að fara undir, jafnvel þó að hann geti ekki séð fyrir sér, virðist bæði vera fullkomlega lögmæt vernd gegn áhættu sem er sameiginleg öllum, ásamt því að vera nauðsynlegur hluti samfélags þar sem einstaklingar hafa ekki lengur bein tengsl við þá hópa sem þeir fæddust í”. Þó Hayek sé ekki nóbelsverðlaunahafi þá er hann eitt af stóru nöfnum hagfræðinnar á síðustu áratugum og er þekktastur fyrir frjálshyggjulegar nálganir. 

Samkvæmt ofangreindu eru margir af helstu hugsuðum samtímans og fyrirmyndir annarra bæði í hagfræði og öðrum samfélagsmálum mjög sammála um nauðsyn þess að skoða leiðir til að taka upp grunninnkomu fyrir alla.

Heimildir:

  • “Where We Are Going” eftir Martin Luther King Jr. úr bókinni ‘Where Do We Go From Here: Chaos or Community?’ árið 1967. 
  • „Tekið upp hanskann fyrir neikvæðan tekjuskatt“ eftir Milton Friedman. Birt í: National Review, 7. mars 1967. 
  • Erindi Sir Christopher Pissarides á ‘World Economic Forum’, í Davos 20. janúar 2016.
  • Erindi Dr. Joseph Stiglitz á ‘World Summit on Technological Unemployment’, í New York 29. febrúar 2015. 
  • Friedrich Hayek tilvitnun má m.a. finna í Wikiquote á veraldarvefnum.